Skip to main content
Starfsfólk sýslumannsembættanna í kirkjutröppunum á Akureyri eftir sameiginlegan starfsdag. Mynd: Barði West

Ekki enn búið að skipa lögreglustjóra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. okt 2025 10:30Uppfært 23. okt 2025 10:32

Nýr lögreglustjóri á Austurlandi hefur ekki enn verið skipaður þótt staðan hafi verið laus í meira en hálft ár. Skipan sýslumanns hefur verið framlengd.

Þetta kemur fram í svörum dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurnum Austurfréttar. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, var sett yfir embættið á Austurlandi 1. apríl síðastliðinn þegar fyrri lögreglustjóri, Margrét María Sigurðardóttir, var skipuð forstjóri Mannréttindastofnunar.

Starfið var loks auglýst um miðjan júní með umsóknarfresti fyrir lok mánaðarins. Þrjár umsóknir bárust. Síðan hefur lítið heyrst opinberlega. Í svari ráðuneytisins segir að enn sé unnið að skipaninni en niðurstaða sé væntanleg „á næstunni.“

Sameiningu sýslumannsembætta frestað um ár

Svavar Pálsson, sýslumaður á Norðurlandi eystra, var fyrir ári skipaður sýslumaður á Austurlandi til eins árs. Búið er að framlengja skipan hans aftur til árs, frá 1. nóvember 2025 til 31. október 2026. 

Á vegum ráðherra er unnið að sameiningu allra sýslumannsembætta landsins í eitt. Málið dagaði upp á síðasta þingi en þá stóð til að sameinað embætti tæki til starfa 1. janúar 2026. Það hefur nú verið endurflutt sem þýðir að nýtt embætti verður ekki til fyrr en 1. janúar 2027.

Starfsfólk sýslumanna undirbýr breytingar

Af sýslumannsembættunum er það annars að frétta að fyrr í þessum mánuði var haldinn sameiginlegur vinnudagur alls starfsfólks sýslumannsembættanna. Rúmlega 200 starfsmenn tóku þátt þar sem áhersla var lögð á framtíðarsýn og samvinnu embættanna. 

Haldnar voru vinnustofur um lykilþætti farsælla breytinga, forystu og mikilvægi samvinnu í umbótastarfi. Þá var farið í stefnumótunarvinnu til að móta forgangsmarkmið fyrir næsta ár. Leiðarstefin þar verða: framsækni, þekking og samvinna. 

Samkvæmt tilkynningu var skýr áhersla á áframhaldandi eflingu stafrænnar þjónustu, samræmingu verklags milli embætta, aukningu starfsánægju og að tryggja að allar breytingar byggist á opnu upplýsingaflæði og gagnkvæmu trausti.

Dagurinn var haldinn á Akureyri. Að honum loknum var haldinn aðalfundur Sýslumannafélags Íslands þar sem Svavar var endurkjörinn formaður.