Ekki enn hægt að hrósa fullnaðarsigri í baráttunni við mislingana
Ekki er enn hægt að lýsa því fullkomlega yfir að náðst hafi að hefta útbreiðslu mislinga á Norðausturlandi eftir að einstaklingur þar greindist með sjúkdóminn um miðjan apríl. Sá tími er þó liðinn sem aðrir eiga að hafa getað smitast.Varnaðarráðstafanir voru gerðar eftir að einstaklingur, búsettur á Þórshöfn, greindist með mislinga örfáum dögum eftir að hann sótti þjóðahátíð á Vopnafirði sunnudaginn 14. apríl síðastliðinn.
Alla jafna er reiknað með því að mislingasmit komi fram 1-3 vikum eftir að einstaklingur smitast af öðrum. Mestar líkur eru á annarri viku en eftir það dregur smám saman úr líkunum.
Í vikunni voru þrjár vikur liðnar frá því að smitið kom upp. Á þeim tíma hafa engin ný tilfelli greinst. Pétur Heimisson, yfirlæknir hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, segir ólíklegt að nokkuð gerist héðan í frá en hins vegar sé ekki enn hægt að lýsa því formlega yfir að smitið hafi breiðst út.
Samkvæmt vinnureglum um faraldursfræði mislinga þarf að líða tvöfaldur meðgöngutími veikinnar, það er sex vikur, þar til hægt er að slá því föstu.
Þó er farið að slaka á þeim varúðarráðstöfunum sem gerðar voru og segir Pétur ástæðu til að hrósa íbúum á Norðausturlandi fyrir þeirra framlag til að hindra frekari útbreiðslu. „Við höfum ekki séð annað en bæði einstaklingar og samfélagið í heild hafi leitast við að axla sína ábyrgð.“