Ekki rétt að bæjarfulltrúar skammist út í starfsmenn á fundi
Bæjarfulltrúar meirihluta og bæjarstjóri Fjarðabyggðar áminntu bæjarfulltrúa Miðflokksins fyrir orð hans í garð starfsmanna sveitarfélagins á bæjarstjórnarfundi á fimmtudag. Ekki væri rétt að bera sakir á þá sem ekki sætu fundinn og gætu ekki svarað fyrir sig. Bæjarfulltrúinn kvaðst ekki hafa verið með ásakanir í garð starfsfólks.Rúnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, gagnrýndi vinnu við fjárhagsáætlun í upphafi fundarins í gær og vakti sérstaka athygli á skuldum A-hluta sveitarsjóðs, sem lýsa má sem þeim hluta sem inniheldur lögbundin verkefni sem fjármögnuð eru með skattfé.
„Ég velti fyrir mér hvort við séum örugglega öll á sömu blaðsíðunni. Sviðsstjórarnir keppast við að fá meira af peningum. Skuldastaða A-hluta er 161% sem er alveg óviðunandi, versta útkoma á landinu. Við verðum að skera verulega niður til að geta haldið áfram. Við lifum núna í mjög góðri tíð og ef við notum hana ekki komumst við ekki upp úr þessu fari.“
Rúnar kom sérstaklega inn á verkefni á vegum eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar. „Ég veit ekki hvort við séum með rétt fólk í þessu, þau [nefndin] sjá ekkert hvað er að. Gamli maðurinn sem styttist í að fari á Breiðablik ætti að kíkja þangað áður.“
Nefndin sér ekki það sem er að
Rúnar gagnrýndi aðbúnaðinn á dvalarheimilinu, ekki hefðu verið efnd loforð um að borið yrði á sólpallana og að innréttingarnar væru ekki boðlegar. „Innréttingarnar þar inni eru síðan 1940. Það þarf að skríða til að komast í skápana og standa upp á stól til að komast í efri skápana.
Þeir sjá það sennilega ekki hjá nefndinni frekar en ruslið og draslið sem mokað er upp úr götunum og skildar eftir í haugum.“ Rúnar bætti því við að fleiri en hann keyrðu framhjá haugunum reglulega, sömu leið færu forseti bæjarstjórnar, bæjarstjóri og sviðsstjóri framkvæmdasviðs.
Bæjarfulltrúa að móta stefnuna
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, sagði rétt að A-hlutinn væri skuldugur og rekstur Fjarðabyggðar þungur. Þannig yrði fram til ársins 2023 meðan skuldir væru greiddar niður. Hann minnti á að sveitarfélagið þyrfti að halda uppi þjónustu auk þess sem það dreifðist á marga byggðakjarna. Rétt væri að viðhaldi væri ábótavant, það hefði verið skorið verulega niður eftir hrunið 2008 og ekki náðst að vinna það upp.
Hann minnti á að hlutverk bæjarfulltrúa og nefndarmanna væri að móta stefnu til að forgangsraða fjármunum og starfsmanna að reyna að nýta þá sem best. Ekki væri hægt að gera kröfu um að nefndarmenn vissu ástandið á hverju húsi þótt gott væri að hafa yfirsýn.
Hann kom einnig inn á að Breiðablik væri bygg löngu eftir 1940 og innréttingarnar því mun nýrri en það. Í andsvari sínu hélt Rúnar Már að þar væri rangt eftir honum haft, hann hefði sagt að innréttingarnar væru eins og frá 1940. Þar væri heilmikill munur á. Sú fullyrðing stemmir ekki við upptöku fundarins.
Ekki með opinn tékka á sveitarfélagið
Rúnar ítrekaði hins vegar gagnrýni sína á fjármálastjórn Fjarðabyggðar. „Við verðum að hugsa eins og við séum að gera hlutina sjálf en ekki að við séum með opinn tékka á Fjarðabyggð,“ sagði hann og nefndi dæmi um verk, uppfyllingu húsgrunna fyrir 16 milljónir og 20 milljónir í hesthúsaveg, sem gera hefði mátt ódýrar.
„Ég get haldið áfram í allan dag að lesa upp úr ruglinu og peningaaustrinu sem er hér þar þar um Fjarðabyggð. Bæjarstjóri verður að taka á þessum málum og stoppa af þessa eyðslu. Ef ekki má setja neitt út á starfsfólk verður erfitt að reka sveitarfélagið.
Formaður nefndar eins og Einar Már Sigurðsson hefur skyldu til að skoða allar eignir, hann á að ganga og skoða gagnrýnið hverja sprungu. Það er ekki eitt einasta hús í Fjarðabyggð sem ég veit ekki hvernig lítur út.“
Gagnkvæm kennslustund?
Einar Már, sem situr fyrir Fjarðalistann, svaraði fyrir sig. „Það er býsna sérkennilegt að hér komi inn ferskur maður og ætli að kenna mér að vera formaður í nefnd. Það er vonandi að lexíurnar verði örlítið málefnalegri en núna. Ef Rúnar Gunnarsson vill taka mig í kennslustund í nefndarstörfum þá getum við gert það í rólegheitum yfir kaffibolla. Mig grunar reyndar að kennslustundin geti orðið á hinn vegin lína og við vonandi báðir betri menn á eftir.“
Einar Már var meðal þeirra bæjarfulltrúa sem ávíttu Rúnar fyrir að draga starfsmenn, þar með talið sviðsstjóra, inn í umræðuna. „Það er alls ekki viðeigandi að við séum að ræða á bæjarstjórnarfundi hvort einstakir starfsmenn séu að standa sig vel eða illa. Hafi bæjarfulltrúi gagnrýni á einstaka starfsmenn þá er það venjulega rætt við bæjarstjóra. Við erum með lag á hvernig rætt er við starfsfólk.“
Bæjarstjóri ósáttur við orð um starfsmenn
Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs, sagðist fordæma aðdróttanir í garð starfsfólks. Þær ættu ekki heima í bæjarstjórn þar sem starfsfólkið gæti ekki svarað fyrir sig.
Bæjarstjórinn Karl Óttar Pétursson bauð bæjarfulltrúanum að koma og ræða starfsmannamál við sig á skrifstofu sinni, ekki taka þau fyrir á bæjarstjórnarfundi. Rúnar sagðist ekki átta sig á hvaða starfsmenn hann hefði ráðist á, þótt hann hefði nefnt að sviðsstjóri framkvæmdasviðs keyrði framhjá malarhaugum úr gatnaframkvæmdum á hverjum degi. Karl Óttar benti Rúnar á að hann hefði meðal annars sagt sviðsstjóra sitja í að sækja pening og starfmenn væru að ausa peningum úr sveitarsjóði.
Þá sagði Karl Óttar að erfitt væri að henda á reiður á stefnu Rúnars. Þegar hann talaði um verkefni framkvæmdasviðs kallaði hann á víxl eftir sparnaði og framkvæmdum.