„Ekki svefnfriður í jafnvel svo vikum og mánuðum skiptir“

Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði ætlar að byggja 147,5 m2 og 652,7 m3 viðbyggingu í kverk austan við frystitækjasal fyrirtækisins og norðan við núverandi pökkunarsal auk starfsmannaaðstöðu í húsnæði fyrirtækisins að Hafnargötu 32.

Fjarðabyggð hefur veitt byggingarleyfi fyrir viðbyggingunni. Íbúar sem búa við Búðaveg eru ósáttir við fyrirhugaða stækkun og segja þá hávaðamengun sem berist frá verksmiðjunni heilsuspillandi.

Í viðbyggingunni verður pökkun afurða eftir frystingu. Núverandi vélar í vinnslu, vigtar, pokavélar, plötufrystar og tilheyrandi færibönd verða fjarlægð og nýr og sjálfvirkari pökkunnar- og frystibúnaður settur í staðinn í húsið auk þess sem uppröðun annarra tækja og búnaðar verður breytt. Gert er ráð fyrir að á vertíðum verði um 10-14 starfsmenn í byggingunni sem er töluverð fækkun frá því sem nú er. Utan vertíðar má gera ráð fyrir 1-3 starfsmönnum við viðhald og önnur tilfallandi verkefni.

Hávaðinn yfir viðmiðunarmörkum
Samkvæmt núgildandi aðalskipulagsuppdrætti er viðbyggingin á íbúðarsvæði og því voru framkvæmdar hljóðmælingar á vegum EFLU vegna þeirrar starfsemi sem þar mun fara fram og kannað hvort hljóðstig vinnslunnar verði innan marka reglugerðar um hávaða.


Niðurstöður mælinganna voru þær að hljóðstig vinnslunnar er hærri en reglugerð kveður á um í íbúðarbyggð og segir í niðurstöðu EFLU: „Er þessi krafa ekki uppfyllt.“


Í reglugerðinni um hávaða segir að hljóðstigið á lóðarmörkum/við húsvegg á daginn skuli ekki fara yfir 50dB. Mælingar fóru fram á íbúðum við Búðaveg og mældist hljóðstigið yfir viðmiðunarmörkum í öllum mælingum, mest 62,7 dB.


Fjarðabyggð samþykkti byggingarleyfið á þeim forsendum að komið yrði fyrir eimsvala norðan við vélasal og minnka þar með hávaðann sem berst og lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði til að uppfylla viðmiðunarmörk fyrir hávaða. Þá er farið fram á að mæling á hljóði fari fram við Búðaveg eftir að framkvæmdum lýkur til að sannreyna útreikningana um að hljóðstig sé innan marka.

Skýlaus krafa um að málið verði leyst
Íbúar við Búðaveg 24 eru ekki sáttir við þá hávaðamengun sem þau búa við og sendu sveitarfélaginu bréf vegna málsins. „Íbúar við Búðaveg 24 hafa búið við óþolandi hávaðamengun, sem er yfir viðmiðunarmörkum og skerðingu á lífsgæðum frá áður nefndum blásurum. Á álagstímum er ekki svefnfriður í jafnvel svo vikum og mánuðum skiptir og hefur valdið íbúum mikilli vanlíðan [...] Ekki er hægt að njóta þess að vera úti í garði vegna hávaðans enda þarf að brýna raust utanhúss. Hávaði frá blásurunum berst inn þó gluggar séu lokaðir. Stjórn Loðnuvinnslunnar er vel kunnugt um óþægindi er hávaðinn veldur. Við höfum kvartað við Loðnuvinnsluna og var reynt að bæta búnað við blásarana, dró heldur úr hávaða en engu að síður allt of mikill og enn óþolandi,“ segir í bréfinu.


Þeim líst illa á áform Loðnuvinnslunnar að stækka vinnsluna á meðan ekki hefur verið fundin lausn á hávaðamálinu. Þau segjast fagna allri uppbyggingu „en hafna algjörlega þeim áformum Loðnuvinnslunnar að stækka verkunina við Hafnargötu 32-36 og gera skýlausa kröfu um að Loðnuvinnslan sjái sóma sinn í að leysa málið í eitt skipti fyrir öll. Ljóst er að fjárfesting sem þessi er ekki til bráðabirgða heldur til framtíðar og því ekki áform um að færa fiskverkunina á svæði þar sem ekki verður ónæði af íbúðabyggð. Það eru mikil vonbrigði að fyrirtækið skuli ekki verja þessum fjármunum í að færa fiskverkunina, eins og stefnt hefur verið að og gefið í þeim svörum LVF til húseigenda [...] Að lokum viljum við ítreka að við höfnum þessum áformum algjörlega á grundvelli þess að hávaðamengun er heilsuspillandi og rýrir verðgildi eignarinnar sem er gríðarlegt fjárhagstjón fyrir okkur,“ segja íbúarnir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.