Orkumálinn 2024

Eldsupptök á svæði Hringrásar ókunn

Ekki er vitað hvað varð til þess að eldur blossaði upp á svæði Hringrásar á Reyðarfirði skömmu fyrir hádegið í gær. Slökkvistjóri segir áhersluna í slökkvistarfinu hafa verið að eldurinn breiddi frekar úr sér.

Útkallið kom klukkan 11:39 og var slökkviliðið komið á svæðið innan við tíu mínútum síðar. Guðmundur Helgi Sigfússon segir að við þeim sem fyrstir voru á vettvang hafi blasað talsverður logar og reykur.

„Það var greinilega hiti í haugnum og leit ekki vel út í byrjun. Menn voru hins vegar fljótir að kæla eldinn niður og ná reyknum niður.“

Eldurinn kom upp í járnahrúgu þar sem meðal annars voru raftæki og bílar. Eldsupptök eru ókunn og í rannsókn hjá lögreglu en Guðmundur Helgi bendir á að í hrúgunni finnist gamlir rafgeymar og batterí sem geti varið varasöm.

Utan í haugnum er síðan dekkjahrúga og hún olli slökkviliðinu einna mestum áhyggjum. „Aðalmálið var að koma í veg fyrir að eldurinn kæmist í dekkin. Það var ekkert tjón af þessu en hætta á mengun og að eldurinn breiddi úr sér.“

Lygnt var er eldurinn kom út og lagði reykinn því aðeins yfir byggðina á Reyðarfirði en fljótlega tók að blása og stóð reykurinn þá á haf út.

Talsverður viðbúnaður var á staðnum, alls fjórir slökkvibílar frá Reyðarfirði, Norðfirði og Fáskrúðsfirði. „Þetta var á þannig stað að erfitt getur orðið að ráða við eldinn. Þess vegna þurftum við að hafa nóg af vatni.“

Slökkvistarfi lauk upp úr klukkan tvö. „Þetta var smá handavinna, við þurftum að moka frá til að geta sprautað inn að eldinum,“ segir Guðmundur Helgi að lokum.

Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.