Endinn á hreinsunarstarfi í augsýn á Seyðisfirði

Hreinsun rústa og björgun muna við Slippinn á Seyðisfirði er komin vel áleiðis. Þar með fer að sjá fyrir endann á eiginlegu hreinsunarstarfi þó enn sé mikið eftir í uppbyggingu og lagfæringum.


Þetta kom fram á stöðufundi í gær með lögreglu, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, fulltrúum Múlaþings, Veðurstofu, fulltrúa heimastjórnar á Seyðisfirði og fleirum. Farið var yfir gang hreinsunarstarfs meðal annars, bráðabirgðahættumat, líkanreikninga, vöktunarmæla og rýmingarkort.

„Tvær vélar eru notaðar við að móta setþró innan varnargarða ofan við Slippinn. Við Nautaklauf var verið að ganga frá grjóthleðslum í farveginum og ganga frá endum efst á varnargarðinum,“ segir á vefsíðu lögreglunnar.

„Verið er að vinna að undirbúningi aðgerða við vatnsfarveg yfir Fossgötu. Hönnun og undirbúningur er enn í gangi fyrir nýja veituþverun á Búðará, en þar er flækjustigið nokkuð vegna umfangs á lögnum.“

Þá kemur fram að síðustu vikuna hefur verið unnið hörðum höndum að líkanreikningum á skriðum sem gætu fallið úr þelaurðinni undir Strandartindi. Þeir eru á lokastigi og nú hefst vinna við að túlka niðurstöðurnar og meta áhættu við farvegi Búðarár og Stöðvarlækjar.

„Fest hafa verið kaup á 6 sjálfvirkum GPS stöðvum til viðbótar við þær þrjár sem fyrir eru. Þegar þeim hefur verið komið upp verður staðan betri fyrir vöktun á meðan úrkoma gengur yfir og mælingar með alstöð verða torveldari sökum lélegs skyggnis. Einnig er unnið að því að streyma gögnum fyrir vaktina á eina síðu þar sem vaktin getur fylgst með öllum mælitækjum á einum stað,“ segir á vefsíðunni.

Unnið er að hönnun og útgáfu á skiltum til dreifingar á Seyðisfirði með ráðum til íbúa um það hvað hafa skuli í huga komi til rýmingar. Þá er rýmingarkort í vinnslu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.