Endurbætur í öryggismálum á höfninni á Vopnafirði
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að ýmsum endurbótum í öryggismálum og fleiru á höfninni á Vopnafirði.Kristinn Ágústsson hafnarvörður segir að höfnin hafi verið þrifin, máluð og snyrt auk þess að settir hafi verið upp nýir stigar á einn hafnarkantinn og nýr björgunarhringskassi á flotbryggjuna.
„Það var kominn tími til að skipta út stigunum því þeir voru orðnir ónýtir,“ segir Kristinn. „Við létum því smíða fyrir okkur nýja stiga. Einnig létum við smíða fyrir okkur kassann á flotbryggjuna en hann hafði skort áður.“
Fram kemur í máli Kristins að auk þess hafi ýmislegt annað sem við kemur öryggi verið endurnýjað eins og Markúsarnet, björgunarhringir og krókar.
Kristinn segir að sæmilegt hafi verið að gera hjá þeim í haust þótt þessi tími núna, það er á milli strandveiða og grásleppuvertíðar sé yfirleitt daufur.
Í nýlegum fundargerðum kemur fram að sveitarstjórn og hafnarnefnd lýsa ánægju sinni með framkvæmdir í öryggismálum á höfninni.