Endurhanna þarf Golfvöll Seyðisfjarðar vegna Fjarðaheiðarganga

Nú er unnið að endurhönnun á Golfvelli Seyðisfjarðar vegna fyrirhugaðra Fjarðaheiðarganga. Ljóst er að vegurinn að göngunum muni taka 6 holur af golfvellinum.

Adolf Guðmundsson formaður Golfklúbbs Seyðisfjarðar segir í samtali við Austurfrétt að málið verði unnið í samvinnu við bæjaryfirvöld og Vegagerðina.

„Við erum núna með golfvallahönnuð í vinnu hjá okkur við þetta verkefni,“ segir Adolf. „Og við erum með ákveðnar hugmyndir um hverning best sé staðið að þessum breytingum.“

Þeir Adolf og Þorvaldur Jóhannsson mættu nýverið á fund bæjarstjórjnar til að reifa málið. Þar var tekin sú ákvörðun að koma á fundi með fulltrúum bæjarins, golfklúbbsins og Vegagerðarinnar.

Aðspurður um hvort það sé erfitt eða flókið að færa þessar 6 holur sem liggja undir fyrirhuguðu vegastæði að göngunum segir Adolf svo ekki vera.

„Nei það á ekki að vera og við höfum nægan tíma í það verk því ekki er áformað að vinna hefjist við göngin fyrr en eftir tvö ár,“ segir Adolf sem leggur áherslu á að þessar breytingar, eða endurhönnun, verði gerðar í fullu samráði við bæjaryfirvöld og Vegagerðina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar