Skip to main content

„Endurnýjun stálþilja í höfnum ein stærsta framkvæmdin sem enginn talar um“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. okt 2025 11:23Uppfært 03. okt 2025 11:24

Áætluð fjárfestingaþörf við hafnarmannvirki í landinu er um 100 milljarðar á næstu 15 árum. Víða er kominn tími á mikla endurnýjun. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir að finna þurfi mismunandi leiðir til að fjármagna verkefni eftir því hversu sterkir hafnarsjóðirnir séu.


Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, kynnti á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga nýja skýrslu Hafnasambands Íslands um fjárfestingar og fjárfestingaþörf í höfnum.

Þar kemur meðal annars fram að fjárfesting í höfnum landsins undanfarin fimm ár hefur verið 27,1 milljarður. Þar af hafa hafnir í Fjarðabyggð og Múlaþingi fjárfest fyrir tæpa fjóra milljarða.

Fjármögnun er hins vegar mismunandi. Fjarðabyggðarhafnir eru eitt þriggja hafnasamlaga sem fjármagna sínar framkvæmdir sjálfar meðan hafnir Múlaþings eru meðal þeirra sem að hluta fá fjármagn frá ríkinu.

Tíu milljarðar á næstu 15 árum


Áætluð fjárfestingaþörf til næstu fimm ára er 41 milljarður á landsvísu. Áfram er gert ráð fyrir miklum fjárfestingum eystra, alls um fimm milljörðum. Fjarðabyggðarhafnir eru í þriðja sæti á landsvísu yfir mestu framkvæmdirnar og Múlaþing í því fimmta.

Enn lengra inn í framtíðina, eða til ársins 2040, er fjárfestingaþörfin áætluð um 100 milljarðar. Þar af er hlutur austfirsku hafnarsamlaganna tveggja um 10 milljarðar og skiptist nokkuð jafnt á milli þeirra. Jóna Árný benti hins vegar á að verkefnin eru æði misjöfn. Á báðum stöðum eru nýir viðlegukantar stærsti kostnaðarliðurinn en í Fjarðabyggð koma landfyllingar og hafnarbakkar þar á eftir en í Múlaþingi eru það flotbryggjur og brimvarnargarðar.

„Ólík verkefni þýða að það næst ekki alltaf samlegð milli svæða. Nýir hafnarkantar eru þó forgangsverkefni hjá öllum næstu 15 árum. Það sýnir áherslu á aukna afkastagetu,“ sagði hún.

Finna þarf lausnir á rafvæðingu hafna


Jóna Árný sagði fyrirséð að á næstu árum þyrfti að endurnýja stálþil víða um land. Hún kallaði það „eitt stærsta verkefnið sem enginn talar um.“ Kostnaður við endurnýjun þeirra á næstu 15 árum er áætlaður 15 milljarðar króna. Nýtt slitlag á hafnir er á sama tíma áætlað 10 milljarðar króna. „Stálþil endast ekki að eilífu. Stór hluti hafnarframkvæmda og hafnarkanta voru byggðir á árunum 1970-80 og það er kominn tími á viðhald. Þetta er drjúgur kostnaður í að viðhalda þeirri þjónustu sem við erum að sinna.“

Sex milljarðar eru áætlaðir í rafvæðingu hafna. Jóna Árný segir að þar þurfi stjórnvöld að koma til viðræðna. „Hafnirnar sjá að það þarf að rafvæða þær en það vantar enn útfærslu á hvernig það verði gert. Þetta er hluti af nútímavæðingu hafnanna.“

Í Múlaþingi er stór hluti fjárfestinganna í brimvarnagörðum. Á landsvísu er kostnaður við þá metinn þrír milljarðar til ársins 2040. „Við höfum búið við sérkennilegt veðurlag síðustu 3 ár. Það er ljóst að sum samfélög búa þannig gagnvart hafi að það þarf að verja þau betur,“ sagði Jóna Árný.

Erfitt fyrir hafnarsjóði sem treysta á sveiflukenndar veiðar


Hún ræddi líka fjármögnun verkefnanna og áskoranir þar. Til dæmis aukist tekjur Fjarðabyggðarhafna um 300 milljónir við loðnuvertíð, sem hefur ekki verið síðustu tvö ár. „Þessar sveiflur gera alla áætlanagerð miklu erfiðari, einkum hjá þeim sem þurfa að fjármagna framkvæmdir sjálf að fullu.“

Jóna Árný benti líka á að samkvæmt fjármálaáætlun ríkisins sé gert ráð fyrir að framlög í hafnabótasjóð dragist saman um hálfan milljarð, úr 1,8 milljarði árið 2023 í 1,3 milljarða árið 2028. Við bætist aukin gjaldheimta á skemmtiferðaskip sem bendir til þess að þau ætli að draga úr ferðum sínum. Dómur í máli Vesturbyggðar, þar sem sveitarfélagið var gert afturreka með aflagjöld af eldisfiski, er hafnasjóðunum heldur ekki hjálplegur.

Jóna Árný sagði þörf á mismunandi nálgun í fjármögnun sem tæki mið af fjárhagslegri getu hvers sjóðs. Tryggja yrði að stærri sjóðirnir héldu getu sinni til framkvæmda og veita minni sjóðunum stuðning. Það sé mikilvægt fyrir íslenskt samfélag.

„Verandi eyland þá eru hafnirnar mikilvægar fyrir allan okkar útflutning, vörur og stóran hluta ferðamanna. Þetta snýst um gjaldeyrisskapandi greinar og að hafa aðgengi að því sem umheimurinn býður okkur. Fjárfesting í höfnum er mikilvægur þáttur í bættri samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs.“