Engin olía lekið úr prammanum

Kafar, sem í dag köfuðu niður að fóðurpramma Laxa fiskeldis sem sökk í óveðrinu á laugardag, fundu engin ummerki um að olía læki úr prammanum. Ástandið á prammanum verður skoðað nánar á morgun. Ekki liggur fyrir hvers vegna hann sökk.

„Það er búið að taka fyrstu köfun og það er engin leki úr prammanum,“ segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa en tíu þúsund lítrar af díselolíu voru um borð.

Kafarar fóru í hádeginu í dag niður að prammanum til að loka loftgötum sem óttast var að olía læki út um. Þeir kafa aftur á morgun og ætlunin þá að þétta loftgötin enn frekar til að fyrirbyggja allan olíuleka auk þess sem gengið verður frá prammanum að auðveldara sé að vinna í kringum hann.

Þegar búið er að kanna stöðuna nánar verður að sögn Jens Garðars hægt að huga að því hvernig hægt sé að ná prammanum upp aftur. Það ræðst meðal annars af veðri. Talið er öruggt að allur vél- og tækjabúnaður í prammanum sé ónýtur en hugsanlega sé skel hans það heilleg að hægt sé að gera hann upp.

Hann segir verkið ganga vel og vera unnið í nánu og góðu samstarfi við tryggingafélag Laxa, köfunarþjónustuna, hafnaryfirvöld í Fjarðabyggð og slökkvilið. „Þetta er samhentur hópur.“

Pramminn stóð við eldisstöðina Gripalda í sunnanverðum Reyðarfirði. Það var á níunda tímanum á laugardagskvöld sem í ljós kom að pramminn var tekinn að síga og var hann sokkinn um klukkan fjögur um nóttina. Pramminn stendur upp á rönd í sjónum, stefnið snýr niður og er á 36-40 metra dýpi en afturendi hans á 18-20 metra dýpi.

Jens Garðar segir það áfall að missa prammann en starfsmenn Laxa hafi strax farið að gera ráðstafanir til að geta haldið áfram að fóðra fiskinn í eldiskvíunum. Því verði truflunin á reksturinn ekki mikil.

„Okkur er velferð fisksins efst í huga. Það detta út nokkrir dagar í fóðrun en við erum með áætlun og förum af stað eins fljótt og hægt er. Við höfum fóðurbyssur sem við setjum á bátana okkar. Fiskurinn getur lifað lengi án fóðurs en stækkar ekki á meðan.

Ekki er ljóst hvað varð til þess að fóðurpramminn sökk. Mikið hvassviðri var á Austfjörðum á laugardag og því fylgdi ísing. Jens Garðar segir mögulegt að hún hafi valdið því að pramminn hafi tekið að síga niður þannig að sjór byrjaði að flæða inn í hann, enda sé áhrif ísingar á skip vel þekkt, en þær hugmyndir séu enn sem komið er aðeins getgátur.

Frá aðgerðum í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.