Engin orkuskerðing um áramótin til stórnotenda austanlands
Sökum batnandi vatnsstöðu í lónum Landsvirkjunar bæði á Austur- og Norðurlandi hefur verið fallið frá orkuskerðingum til stórnotenda á þessum svæðum frá áramótum eins og útlitið var um skeið.
Staða Hálslóns er nú til að mynda orðin betri en í fyrravetur þó vatnsstaða lónsins hafi verið með því allra lægsta langt fram eftir hausti. Var af þeim sökum fyrst varað við að til skerðinga gæti komið strax um miðjan nóvembermánuð en mikill hlýindakafli þann mánuðinn breytti stöðunni til hins betra. Var skerðingum austanlands þá frestað fram að áramótum miðað við þáverandi stöðu.
Enn hefur bætt í lónið síðan þá og það nægilega mikið til að ekki kemur til skerðinga um áramótin og gefur Landsvirkjun ekki upp neina frekari dagsetningu varðandi skerðingar þegar líða fer á veturinn.
Staðan allt önnur og verra á suðvesturhluta landsins en þar tóku skerðingar strax gildi þann 24. október síðastliðinn og standa enn. Ekki er útlit fyrir að það breytist á næstunni.