Engin teljandi hreyfing á hlíðinni ofan Eskifjarðar síðan í desember

Engin teljandi hreyfing hefur mælst á svæði ofan við byggðina á Eskifirði sem varð til þess að stór hluti svæðisins milli Lambeyrarár og Ljósár var rýmdur um miðjan desember. Rannsóknir á svæðinu hafa verið auknar síðan og verður áfram.

Skömmu eftir að stóra skriðan féll á Seyðisfirði 18. desember var ákveðið að rýma stórt svæði á Eskifirði. Um hádegi höfðu sést sprungur í veginum upp í Oddsskarð, ofan við götuna Helgafell, sem stækkuðu yfir daginn.

„Þetta var við algjör aftakaaðstæður. Það rigndi 500 mm. á níu dögum. Þetta er eitthvað sem gerist 1-2 á öld og það þarf ekki að verða hreyfing þótt það rigni svona mikið,“ sagði Magni Hreinn Jónsson, hópstjóri á ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands á íbúafundi í Eskifirði í gærkvöld.

Þekkt hreyfing

Magni lýsti hreyfingunni í hlíðinni þannig hún hún væri bundin við tvö svæði í veginum. Ekki væru ný tíðindi að þau hreyfðust, það hefði bæði sést á veginum og staurum í hlíðinni og verið staðfest með mælingum með bylgjuvíxltæki. Þá er hreyfingin eðlileg frá náttúrunnar hendi. Nokkur hreyfing var á árunum 2017-18 en úr henni dró aftur fram til 2020. Eftir er að greina gögn fyrir síðastliðið ár.

„Við þekkjum þessa hreyfingu og hún sjálf er ekki áhyggjuefni heldur hraðinn sem var á henni í desember. Við höfum ekki séð hreyfingu annars staðar,“ sagði Magni Hreinn.

Aukin vöktun eftir 18. desember

Strax eftir 18. desember var bætt í mælingar. Vefmyndavélar voru settar upp og verða áfram í gangi. Þær nýtast þó ekki nema hreyfingin sé þeim mun meiri.

Speglar voru settir á svæðið. „Þeir hafa aldrei sýnt hreyfingu því hún hafði stöðvast þegar þeir voru settir upp. Við höfum mælt með þeim sjö sinnum síðar og það hefur ekki verið nein merkjanleg hreyfing. Við mælum mánaðarlega nú í vætutíðinni í haust og oftar ef þarf, til dæmis í kringum stórrigningar,“ útskýrði Magni.

Hann bætti við að í síðustu mælingu hefði mátt merkja nokkurra millimetra hreyfingu, trúlega vegna borvagns sem var á svæðinu í sumar. Boraðar voru alls þrettán holur til að greina jarðlagasnið auk þess sem mælitæki fara í fjórar þeirra. Búið er að panta mælana, meðal annars aflögunarmæla eins og settir hafa verið upp á Seyðisfirði og verða þeir settir upp um leið og þeir berast. Eins hefur svæðið verið skannað með bylgjuvíxltæki, eins og því sem nýst hefur vel á Seyðisfirði undanfarna tíu daga en Magni lýsti því sem „algjöru galdratæki“ á fundinum.

„Við greinum allt sem kemur upp. Það var safnað miklu af gögnum í sumar sem við eigum enn eftir að vinna úr. Niðurstöðurnar koma í vetur eða vor. Þessar rannsóknir sýna hvort þörf sé á frekari rannsóknum og hvernig vöktun verði hagað í framhaldinu eða hvort hættumat verði skoðað.“

Tími kominn á nýtt hættumat

Rýmingin í desember kom á óvart því fæst húsanna voru á hættusvæði. Hættusvæði á Eskifirði hafa mest verið talin næst árfarvegum. Magni sagði ljóst að endurskoða þyrfti hættumatið, bæði vegna þess að það væri orðið 20 ára gamalt og miklar varnir verið byggðar upp síðan, en líka vegna þess sem gerðist í desember. „Það er augljóst að þegar svona stórt svæði er rýmt þarf að endurskoða hættumatið, jafnvel þótt aðeins sé rýmt í varúðarskyni.“

Nýtt hættumat verður þó ekki tilbúið fyrr en búið er að vinna úr rannsóknum sumarsins. Hjá Veðurstofunni er hins vegar bráðabirgðahættumat og rýmingaráætlanir uppfærðar jafnóðum eftir því sem niðurstöður rannsókna berast. Búið er að endurskilgreina rýmingarsvæði á Eskifirði.

Snjódýptarmælir í Harðskafa

Á fundinum í gær lýstu íbúar áhyggjur af vatni í hlíðinni og götum næst Oddskarðsveginum. Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri sagði að allar ábendingar yrðu skoðaðar því þær nýttust jarðfræðingum við þeirra vinnu. „Við förum inn í veturinn með góða yfirsýn yfir stöðuna og góða vöktun,“ sagði hann.

Til viðbótar við skriðuhættuna í desember féllu stór snjóflóð úr efstu hlíðum fjallanna upp af bænum í janúar. Magni sagði snjóflóðahrinuna hafa verið öfluga þótt flóðin vantaði mikið upp á að ógna byggðinni. Langstærsta snjóflóðið féll úr Harðskafa og þar verður í sumar settur upp sjálfvirkur snjódýptarmælir en hann nemur einnig hitastig í snjónum og andrúmslofti. Mælarnir eru hannaðir og framleiddir á Ísafirði og hefur fjölgað jafnt og þétt hérlendis síðustu ár enda sagði Magni þá gefa mjög gagnlegar mælingar fyrir snjóflóðahættu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.