Skip to main content

Enginn enn leitað til læknis eftir matarsýkingu á þorrablóti

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. feb 2025 15:53Uppfært 17. feb 2025 15:55

Áhersla er lögð á að ná að rekja uppruna matarsýkingar sem varð á þorrablóti í Brúarási á laugardagskvöld með það að markmiði að koma í veg fyrir að slíkar sýkingar komi oftar upp. Yfir 40 einstaklingar hafa tilkynnt veikindi en enginn virðist hafa veikst alvarlega.


„Blessunarlega virðast einkennin hafa verið væg og gengið yfir að sjálfu sér, það er án þess að fólk þyrfti að leita til læknis,“ segir Eyjólfur Þorkelsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Stofnunin óskaði eftir því í morgun að þorrablótsgestir létu vita af því í gegnum tilkynningasíðu embættis landlæknis hafi þeir veikst eftir blótið í Brúarási. Rúmlega fjörtíu einstaklingar hafa núna tilkynnt veikindi.

Mikilvægt að læra af tilvikum


Eyjólfur segir að áherslan sé á að ná utan um útbreiðslu veikindanna til að finna uppruna þeirra og draga af þeim lærdóm. „Í svona tilfellum skiptir faraldsfræðileg vinna, sem er að greina sýkilinn, tilurð sýkinga umfang, miklu máli. Við viljum læra af þessu og fyrirbyggja að svona gerist,“ segir hann.

Þorrablótsnefndin sjálf sendi frá sér yfirlýsingu á samfélagsmiðlum í dag þar sem gestum var þakkað fyrir góða skemmtun en það væri miður að þurfa að tilkynna grun um matareitrun. Þar segir að haft hafi verið samband við Heilbrigðiseftirlit Austurlands í gær þegar grunur kviknaði um sýkingu og það brugðist skjótt við með sýnatöku. Ekki er þó von á niðurstöðum fyrr en í fyrsta lagi seint í vikunni.

Aukin meðvitund um matarsýkingar


Eyjólfur segir að til draga úr áhrifum magapesta skipti máli að nærast og drekka vel en það góða sé að slík veikindi sé að þau gangi yfirleitt hratt yfir. Ávallt þurfi að huga að handþvotti, einkum í tengslum við salernisferðir og hafa gát á þegar matvæli séu borin fram.

Í tilkynningu nefndarinnar segir að við undirbúning blótsins hafi verið farið yfir alla verkferla sem þurfi að vera í lagi þegar stórt hlaðborð sé haldið. Ýtrasta hreinlætis hafi verið gætt, diskar lagðir fyrir hvern gest ásamt hnífapörum, kæling matvæla verið til fyrirmyndar og passað upp á að skipt væri um áhöld í matvælum í hvert skipti sem bætt var á hlaðborðið.

Í samtali við Heimildina um helgina benti sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun á að fólk væri orðið meðvitaðra um matarsýkingar í kjölfar mjög alvarlegrar sýkingar á leikskóla í Reykjavík fyrra og tilkynningum því fjölgað. Stofnunin hratt af stað í haust vitundarátaki um rétta meðferð kjöts til að koma í veg fyrir E.coli smit. „Ég get vel trúað að umtalið og umræðan um hópsýkingar af völdum matvæla hafi gert fólk meðvitaðra og það bregðist því frekar við en áður,“ segir Eyjólfur.