Enn eitt metárið hjá Blængi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. jan 2025 11:02 • Uppfært 16. jan 2025 11:05
Skuttogarinn Blængur, skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, sló í fyrra eldra met fyrir mestan afla og aflaverðmæti austfirskra togara á einu ári. Skipstjóri segir stöðugleika í áhöfn skipsins vera forsendu árangursins.
Blængur veiddi í fyrra rúm 8.034 tonn af slægðum afla samanborið við 7.570 tonn árið 2023, sem var fyrra metár þess. Samkvæmt upplýsingum frá Síldarvinnslunni fór aflaverðmætið í fyrra yfir 3,5 milljarða króna samanborið við tæpa 3 milljarða árið áður.
Þorskur var stærsti hluti aflans í fyrra eða um 2.000 tonn. Uppistaðan þar var úr ferð í Barentshaf í febrúar í fyrra. Þar á eftir koma rúm 1.700 tonn af ýsu, 1.500 tonn af annars vegar ufsa, hins vegar karfa, um 500 tonn af gullaxi og rúm 440 tonn af grálúðu.
„Grunnurinn að þessu er að við höfum verið með meiri aflaheimildir en áður. Síðan gátum við verið óáreittir á veiðum, það þurfti aldrei að stoppa vegna bilana eða til að fara í slipp. Síðan er það að hafa stöðugan mannskap og góða áhöfn,“ segir Bjarni Ólafur Hjálmarsson, annar skipstjóra skipsins.
Blængur er mannaður af tveimur áhöfnum sem skiptast á. Í þeim eru alls 54 einstaklingar sem gera skipið að stærri vinnustöðum hérlendis úti á sjó.
Í góðu standi eftir endurbætur 2016
Skipið er smíðað á Spáni árið 1973 og telst meðal svokallaðra Spánartogara. Þeir voru upphaflega sex talsins en Blængur er einn þeirra eftir. Hann var upphaflega keyptur til Reykjavíkur sem Freri RE en var seldur til Síldarvinnslunnar sumarið 2015. Vorið 2016 var hann sendur í slipp til Póllands og hann endurnýjaður verulega, meðal annars allar vistarverur endurnýjaðar.
Bjarni Ólafur segir þá yfirhalningu forsendu þess að hinn rúmlega 50 ára gamli Blængur er enn í fínu formi. „Hann er í mjög góðu ástandi eftir þá endurnýjun. Vistarverurnar voru endurnýjaðar þannig það ver vel um áhöfnina.“
Enginn kvóti í Barentshafi í ár
Bjarni Ólafur segir engan einn túr hafa staðið upp úr í fyrra. Aflinn hafi mestur fengist á Íslandsmiðum utan þessarar einu ferðar sem farin var í Barentshafið. Skipið verður á Íslandsmiðum allt þetta ár, hrun er í þorskstofninum í Barentshafi og enginn kvóti fyrir íslensk skip.
Síðustu veiðiferð ársins lauk með löndum þann 19. desember. Blængur fór í sinn fyrsta túr á þessu ári strax 2. janúar og er skipið að veiðum úti fyrir Vestfjörðum. Togarinn verður að þessu sinni tæpa 40 daga á sjó, sem er óvenjulangt en það er vanalega fjórar vikur úti í einu.