Skip to main content
Á fjórum árum hefur ferðafólki á þremur vinsælustu ferðamannastöðunum fjölgað um 54 prósent

Enn eitt metárið í ferðamannafjölda til helstu náttúruperlna Austurlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. okt 2025 10:34Uppfært 23. okt 2025 10:53

Þó enn lifi rétt rúmir tveir mánuðir af árinu liggur þegar fyrir að metfjöldi ferðafólks hefur heimsótt tvær af helstu náttúruperlum Austurlands hingað til. Þar um að ræða Stuðlagil og Hengifoss en alls rúmlega 420 þúsund manns hafa heimsótt þá staðina auk Hafnarhólma sem er 7% fjölgun frá metárinu í fyrra.

Það er venjulega um mánaðarmót október og nóvember sem heimsóknir ferðamanna á Austurlandi taka dýfu niður á við fram til aprílmánaðar þegar gestakomurnar fara að aukast á nýjan leik. Þrátt fyrir að eitthvað við bætist við fjöldann til áramóta er þegar staðfest að gestakomur að Stuðlagili og Hengifossi hafa aldrei mælst fleiri samkvæmt gögnum Ferðamálastofu sem heldur úti talningarmælum þar og við Hafnarhólma á Borgarfirði.

Alls hafa þannig rúmlega 246 þúsund gestir barið Stuðlagil augum samanlagt Grundar- og Klausturselsmegin hingað til ársins en það hvorki meira né minna en 36 þúsund fleiri en komu þar við allt árið 2024. Við Hengifoss er fjölgunin ekki alveg jafn gríðarleg en þar hafa rúmlega 120 þúsund gestir stigið niður fæti eða um fimm þúsund fleiri en í fyrra.

Það einungis við Hafnarhólmi sem dregið hefur heldur úr ferðamannafjöldanum á milli ára og það nokkuð duglega. Það sem af er árs telst Ferðamálastofu til að tæplega 54 þúsund gestir hafi komið þar við en í fyrra var fjöldinn rúmlega 67 þúsund talsins.

Frá því að Ferðamálastofa hóf talningar fyrir fjórum árum síðan á öllum þessum stöðum hafa gestakomur aukist um 54%. 2022 var heildarfjöldi til allra þriggja staða alls 272 þúsund en stendur nú í 420 þúsundum og gæti endað í fjögur til fimm þúsund í viðbót áður en árið er allt.