Skip to main content

Enn erfið staða í raforkuframleiðslu þótt staðan í Hálslóni sé orðin betri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. des 2024 16:44Uppfært 17. des 2024 16:48

Hlýtt og rakt haust hefur orðið til þess að vatnsyfirborð Hálslóns er orðið hærra en í meðalári. Þar með er vonast til að grípa til skerðinga á raforku á Norður- og Austurlandi. Staðan er enn erfið á Suðurlandi vegna lágrar stöðu í Þórisvatni. Þess vegna er ekki útlit fyrir að fiskimjölsverksmiðjur fái aðgang að raforku og verði keyrðar á olíu.


Landsvirkjun tilkynnti í síðustu viku að hún hefði fallið frá skerðingum á raforku til stórnotenda á Norður- og Austurlandi. Þær þarf að boða með mánaðarfyrirvara og í haust var varað við þeim vegna lágrar vatnsstöðu í miðlunarlónum, einkum Þórisvatni á Suðurlandi og Hálslóni.

Staðan í Hálslóni hefur batnað mikið síðustu vikur. Vatnshæð lónsins er núna tæpum tveimur metrum hærri en í meðalári og tæpum fjórum metrum hærri en í fyrra, en þá var gripið til skerðinga sem stóðu frá febrúar fram í maí.

„Við teljum stöðuna viðunandi og höfum því fallið frá skerðingum á svæðinu um óákveðinn tíma. Hálslón er yfir meðalstöðu og það hefur yfirleitt dugað út veturinn. Við vonumst til að það haldi núna,“ segir Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Landsvirkjun.

Staðan áfram slæm á Suðurlandi


Aðalvandræðin stafa frá Þórisvatni sem fæðir virkjanir Landsvirkjunar á Þjórsársvæðinu. Það hefur gengið í gegnum mögur ár og núverandi vatnsár er engin undantekning. Í byrjun nóvember var vatnsstaðan lægri en hún hefur nokkru sinni verið á sama árstíma en hefur lagast og er núna svipuð og hún var í fyrra. Hún er hins vegar rúmum fjórum metrum lægri heldur en í meðalári. Til að bæta gráu ofan á svart er grunnvatnsstaða á svæðinu lág sem þýðir lítið innrennsli í lónið. Í fyrra voru skerðingar nær allan veturinn.

Við aðstæður sem þessar hefur Landsvirkjun nokkrar leiðir. Í fyrsta lagi er að tryggja raforku innan almennan markað. Í öðru lagi að skerða takmarkaða víkjandi orku, sem hægt er að taka alveg úr og fyrirvaralaust. Fiskimjölsverksmiðjurnar hafa keypt rafmagn á slíkum samningum.

Í þriðja lagi er önnur skerðanleg orka. Fjórða úrræði Landsvirkjunar er að kaupa aftur orku af stórnotendum. Þetta ákvæði er í samningum við Elkem, sem rekur járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Það hefur verið virkjað til að tryggja orku á suðvesturlandi. Þess utan er eins mikið rafmagn flutt frá Austurlandi til Suðurlands og flutningskerfi Landsnets ber. Við flutning um langar leiðir verður hins vegar alltaf orkutap.

Síldarvinnslan skoðar að stækka olíukatlana


Þessi staða þýðir það að kaupendur forgangsorku fá þá orku sem þeir þurfa. Lítið er hins vegar til aflögu og ekkert sem bendir til að orka verði í boði fyrir fiskimjölsbræðslurnar. Þær hafa verið keyrðar á olíu í haust.

„Við erum alvarlega að skoða að stækka olíukatlana. Við höfum stækkað verksmiðjuna en olíukatlarnir eru hugsaðir sem varaafl og duga ekki til að keyra hana á fullum afköstum. En við fáum ekki raforku,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Brim keypti tvær nýjar dísilvélar til að knýja starfsemi sína á Vopnafirði fyrr á þessu ári.

Valur bendir á að í gegnum tíðina hafi sjávarútvegsfyrirtækjunum verið boðið að kaupa forgangsorku, en þau ekki viljað hana þar sem hún sé dýrari. Í ár er staðan þannig að þau gætu varla keypt hana þótt þau vildu. Landsvirkjun selur sína framleiðslu inn á markað þar sem smásalar kaupa rafmagn og selja það áfram. Tæknilega séð gætu bræðslurnar samið við smásala um forngangsorku en þá er viðbúið að skerða þyrfti hjá öðrum aðila á móti.

Verðlækkanir ekki í kortunum


Framleiðsla sem ekki annar eftirspurn leiðir til hærra raforkuverðs. Þannig birti Alþýðusamband Íslands verðkönnun í gær sem sýnir miklar hækkanir á raforku síðustu mánuði. Aðspurður segir Valur að ekkert sé í kortunum í framleiðslunni sem leiði til verðlækkana. Þótt staðan í Hálslóni sé orðin þokkaleg og heildarstaðan skánað hafi ekki orðið nein bylting. Yfir vatnsárið komi góðir kaflar og slæmir og Landsvirkjun horfi á veturinn í heild.