Enn of snemmt að meta áhrifin af falli Play á Austurland
Ferðaþjónustuaðilar segja að enn sé of snemmt að segja til um áhrif gjaldþrots flugfélagsins Play á ferðaþjónustu á Austurlandi. Kallað er eftir að Íslandsstofa sé vakandi fyrir neikvæðum áhrifum á markaðssetningu landsins.
Flugfélagið Play hætti rekstri í gærmorgun, eftir að flestar vélar félagsins höfðu komist af stað til áfangastaða í Evrópu. Aðilar sem Austurfrétt hefur rætt við innan austfirskrar ferðaþjónustu eru á því að almennt sé erfitt að segja til um áhrifin af falli félagsins í fjórðungnum.
„Við höfum ekki upplýsingar um með hvaða flugfélögum viðskiptavinir okkar koma. Við höfum ekki séð neinar afbókanir enn vegna þessa en þær verða eflaust einhverjar.
Trúlega verða litlar breytingar til skamms tíma. Það er aldrei gott þegar svona gerist en það er skást að það gerist á tíma þegar farið er að róast hjá okkur,“ segir Gunnlaugur Jónasson hjá Gistihúsinu á Egilsstöðum.
Íslandsstofa þarf að bregðast við neikvæðri umræðu
Berglind Viktorsdóttir, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Hey Iceland, selur ferðir og gistingu hjá fjölda ferðaþjónustufyrirtækja á Austurlandi. Hún vonast til að áhrifin verði óveruleg en stjórnvöld verði að vera tilbúin með aðgerðir til að draga úr þeim.
„Þetta er sannarlega högg en það er mikið framboð á flugi til Íslands og þess vegna vil ég trúa því að þetta hafi ekki áhrif til lengri tíma. Play skiptir ekki öllu máli fyrir fólk sem hefur áhuga á Íslandi.
Hins vegar er að skapast neikvæð umræða um Ísland því það er ekki gott til afspurnar að íslenskt flugfélag fari í þrot. Þá reynir á sameiginlega markaðssetningu Íslands og þar verður Íslandsstofa að vera tilbúin að stíga inn.
Við fögnum því að önnur félög fljúgi hingað en þau þarf að rækta. Herferðir í stuttan tíma duga ekki, það verður að markaðssetja jafnt og þétt, allt landið allt árið,“ segir hún.
Takmörkuð gögn um ferðir farþega Play
Hægt er að velta upp ýmsum hliðum á falli Play og ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Til dæmis hvort ólíklegra sé að ferðamenn sem ferðast með lággjaldafélögum fari í lengri ferðir, sem eru þeir ferðamenn sem heimsækja Austurland helst. Nokkrir viðmælendur Austurfréttar, með innsýn í austfirska ferðaþjónustu, sögðust telja að áhrifin yrðu minni á Austfjörðum og Vestfjörðum heldur en Suðurlandi.
Eins má velta því upp hvort það sé galli að Icelandair sé eina íslenska áætlunarflugfélagið sem þýði að það standi eitt í markaðssetningu Íslands erlendis í stað þess að félögin væru tvö áður. Eða hvort minna framboð á ódýrari sætum geti dregið úr ferðum til landsins.
Aðspurð um þessar vangaveltur svarar Berglind að þær eigi rétt á sér en gögn skorti til að skera úr um þær. „Við höfum ekki upplýsingar um dvalarlengd farþega Play á Íslandi.“
Flugvél Play á Egilsstaðaflugvelli í desember 2024. Mynd: Benedikt V. Warén