Skip to main content

Enn óvissustig vegna snjóflóða á Fagradal

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. jan 2025 08:47Uppfært 07. jan 2025 08:50

Óvissustig vegna snjóflóða hefur verið á veginum yfir Fagradal síðan seinni partinn í gær. Nokkuð hefur snjóað á Austurlandi síðustu daga.


Strax fyrir hádegi í gær tilkynnti Vegagerðin um að snjóflóðahætta kynni að skapast á Fagradal. Klukkan fimm síðdegis tók óvissustig gildi vegna snjóflóðahættu úr Grænafelli.

Hálka og éljagangur er á flestum vegum á Austurlandi. Varað er við þrengingum vegna snjósöfnunar inn á veg á Jökuldalsheiði.

Eftir snjólétt jól og áramót tók að snjóa á Austurlandi á sunnudag og hélt áfram í gær. Gengið hefur á með éljum frekar en að snjókoman hafi verið stöðug.

Þetta er þó misjafnt eftir stöðum. Þannig er nær engin úrkoma skráð frá miðnætti á Eskifirði og lítil í gær, meðal uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði í nótt er rúmir 5 mm, sú mesta á landinu.