Enn vatnsmengun í Breiðdal og á Seyðisfirði
Enn mælist mengun bæði í vatnsbóli Breiðdælinga og við Strandarveg á Seyðisfirði samkvæmt síðustu sýnatökum. Hún þó væg á báðum stöðum.
Mengunar varð vart við Strandarveg á Seyðisfirði þann 26. apríl síðastliðinn en þá fannst töluvert magn kólígerla í vatnsleiðslum við Strandarveg en hvergi annars staðar í bænum. Víst þykir að mengunina megi rekja til vinnslu Síldarvinnslunnar við þá götu en þrátt fyrir að íbúar við götuna hafi látið vatn renna til að skola lagnirnar greinist enn lítils háttar mengun að því er fram kemur á vef HEF-veitna.
Væg mengun er einnig viðvarandi í Breiðdal en þar uppgötvaðist mengun enn fyrr eða þann 23. apríl fyrir réttum tveimur vikum síðan.
Væg mengun á báðum stöðum merkir að ekki er nauðsyn á að sjóða allt neysluvatn en þó eru áfram tilmæli til íbúa á þessum slóðum að viðkvæmir einstaklingar ættu áfram að sjóða neysluvatnið til öryggis. Þar til teljast börn yngri en fimm ára, fólk með viðkvæmt ónæmiskerfi, fæðiofnæmi eða fæðuóþol og barnshafandi konur.
Yfirborðsvatn líklega komist í brunna
Æði margar tilkynningar hafa borist um vatnsmengun á Austurlandi síðustu mánuðina á hinum ýmsu stöðum. Aðspurð segir Lára Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands, fjöldann undanfarið vissulega vera óvenjulegan. Orsakirnar víðast hvar séu að líkindum þær að yfirborðsvatn, annaðhvort í leysingum eða með miklum rigningum, hafi komist ofan í brunna á umræddum stöðum. Það sé því mjög brýnt að vatnsveitur á hverjum stað fyrir sig yfirfari alla brunna til að fyrirbyggja að slíkt gerist aftur.