Skip to main content

Er fylgið að koma heim?

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. nóv 2024 14:34Uppfært 28. nóv 2024 14:40

Vísbendingar eru um að fylgi milli stjórnmálaflokka í Norðausturkjördæmi sé enn á talsverðri hreyfingu í vikunni fyrir kjördag. Gæfa Framsóknarflokks og Viðreisnar virðist vera að snúast við og almennt er staðan nú líkari fyrri kosningaúrslitum kjördæmisins.


Þetta má lesa út úr könnun sem Maskína birti í dag. Hún er ekki brotin niður eftir kjördæminu og því er erfitt að reikna út þingmannafjölda. Hins vegar eru að baki Austurlandi 86 svör og 288 á Norðurlandi, sem er óvenjumikið fyrir hvort svæði.

Á Austurlandi er Samfylkingin stærst með 19,2% en Miðflokkurinn annar með 17,8%. Framsóknarflokkurinn, sem var um 8% í kjördæminu fyrir viku, er í 14,1% á Austurlandi. Sjálfstæðisflokkurinn kemur líka betur út en fyrir viku, er með 12,7% á Austurlandi.

Flokkur fólksins er með 12,1% en Viðreisn, sem var með rúm 17% í kjördæminu fyrir viku, er með 8,6% á Austurlandi nú. VG hefur sótt í sig veðrið, mælist með 7,8% eystra og Píratar bæta líka við sig með 4,2%. Sósíalistar eru þar með 2,8%, Lýðræðisflokkurinn 0,4% og Ábyrg framtíð 0,2%.

Almennt eru tölurnar á Austurlandi og Norðurlandi svipaðar. Inni í tölum Norðurlands eru líka svör sem tilheyra Norðvesturkjördæmi, þannig hæpið er að leggja saman Norður- og Austurland til að fá út kjördæmatölu.

Helsti munurinn á milli er að Miðflokkurinn er mun sterkari á Austurlandi og hið sama gildir um Flokk fólksins og Vinstri græn. Á móti eru Framsóknarflokkur, Sósíalistar og Lýðræðisflokkurinn betur staddir á Norðurlandi.