ESA: Fjölfosfatabanni framfylgt víðar en hér

esb_fani.jpgÓlafur Valsson, yfirmaður matvælaeftirlits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) segir stofnunina fylgjast með því að önnur aðildarríki framfylgi banni með notkun fjölfosfata við saltfiskvinnslu.

 

Þetta er haft eftir Ólafi í Austurglugganum. Þar kemur fram að Norðmenn hafi gefið þær upplýsingar að banninu sé framfylgt og eftirlit virkt. Sömu svör hafi fengist frá Danmörku.

Íslenskir saltfiskframleiðendur hafa vísað til notkunar í Færeyjum, Danmörku og Þýskalandi. Í Þýskalandi er í gangi dómsmál höfðað af fyrirtæki í íslenskri eigu þar sem farið er fram á að notkunin verði leyfð. Notkunin er leyfð á ákveðnum markaði meðan málið er í gangi.

Í Austurglugganum er haft eftir Ólafi að sögusagnir hafi verið á kreiki um notkun efnanna í Þýskalandi en enginn hafi getað bent honum á staðfest tilfelli.

Talsmaður heilbrigðis- og neytendamála hjá Evrópusambandinu segir fullt samræmi í eftirfylgd löggjafarinnar á öllu aðildarsvæðinu. Agl.is hefur óskað eftir upplýsingum frá nokkrum aðildarríkjum um stöðuna.

Í samtali við Agl.is ítrekaði talsmaður ESA að það væri ekki stofnunin sem hefði bannað Íslendingum notkun efnanna. Íslendingar hefðu tekið það upp í gegnum EES samkomulagið og innleitt bannið árið 2002.

Í samtali við Austurgluggann hafnar Ólafur því að hægt sé að skilgreina fjölfosfötin sem tæknileg hjálparefni. Það hafa talsmenn ESA og Evrópusambandsins ítrekað í samtölum við Agl.is. Ólafur segir þá staðreynd að framleiðendur reyni að fá efnin samþykkt sem aukefni en ekki tæknileg hjálparefni undirstrika þá túlkun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.