Eskfirðingur í hópi fálkaorðuhafa

Rósa Björg Jónsdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur frá Eskifirði, var í hópi þeirra fjórtán einstaklinga sem forseti Íslands sæmdi heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu í gær.

Rósa Björg sem er fædd árið 1972 ólst upp á Eskifirði en hefur frá unglingsárum búið í Reykjavík þar sem hún starfar sem skráningastjóri hjá Landsbókasafni Íslands.

Hún fékk riddarakross fyrir sjálfboðaliðastörf í þágu Móðurmáls, samtaka um tvítyngi, en á þeirra vegum hefur hún skráð og miðlað barnabókum á öðrum tungumálum en íslensku. Rósa Björg er varaformaður samtakanna og veitir bókasafni þeirra forstöðu.

Í viðtali við RÚV í fyrra sagði hún frá því að hún væri með yfir 4000 barna- og unglingabækur á meira en 50 tungumálum í kjallaranum á heimili sínu í Vesturbæ Reykjavíkur. Bækurnar eru allar skráðar í gagnagrunn íslensku bókasafnanna, Gegni.

Rósa Björg lærði bæði hérlendis og á Ítalíu. Í ágúst í fyrra tók hún við sem konsúll Ítalíu í Reykjavík.

Fálkaorðuhafar á þjóðhátíðardaginn 2021. Rósa Björg er þriðja frá hægri. Mynd: Embætti forseta Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.