Orkumálinn 2024

Fá atkvæði að austan í fyrstu tölum

Hæpið er að atkvæði af Austurlandi verða í fyrstu tölum sem birtar verða úr Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningunum á morgun. Lokatölur fást vart fyrr en snemma á sunnudagsmorgun, svo framarlega sem vel gengur að koma kjörgögnum á talningarstað á Akureyri.

Kjörgögnum af svæðinu frá Borgarfirði til Djúpavogs er safnað saman á Egilsstöðum og þaðan flogið með þau norður. Kjörstaðir í Fjarðabyggð annars staðar en á Mjóafirði eru auglýstir opnir til klukkan 22:00. Á minni stöðum er þó heimild til að loka hafi enginn kosið í hálftíma og kjörstaður verið opinn í að minnsta kosti átta tíma.

Eftir að kjörfundi lýkur þarf kjörstjórn á hverjum stað að stemma af atkvæði áður en þau eru keyrð upp í Egilsstaði. Að sögn Gests Jónssonar, formanns yfirkjörnar í kjördæminu, er algegnt að afstemmingin taki um klukkutíma. Þetta allt gerir það að algegnt sé að flugvélin leggi af stað frá Egilsstöðum upp úr miðnætti. Á Vopnafirði lýkur kjörfundi klukkan 18:00. Björgunarsveitir safna kjörgögnum þaðan og af Langanesi og Melrakkasléttu saman og keyra til Akureyrar.

Fyrstu tölur úr Eyjafirði

Þetta þýðir að atkvæði af Austurlandi, nema þá frá Vopnafirði ef vel gengur, verða ekki komin til Akureyrar, þar sem talið verður, áður en fyrstu tölur verða birtar. Búist er við að það verði um klukkan 22:30. Að sögn Gests verða atkvæðin að austan með í öðrum eða þriðju tölum. Reynt verður að blanda þeim saman við eins fljótt og hægt er eftir að þau koma.

Þunginn í þeim kemur þá frá Akureyri, þar sem skipt er um kjörkassa og byrjað að telja áður en kjörfundi lýkur. Í Fjallabyggð er einnig skipt um kjörkassa klukkan 18:00. Gögn ættu einnig að hafa borist víðar af Norðurlandi þar sem kjörfundi lýkur fyrr.

Gæslan til taks fyrir Grímsey

Áhyggjur hafa verið af að stormur, sem spáð er um helgina, geti haft áhrif á flutning kjörgagna á talningarstað. Veðurspáin fyrir Norðausturkjördæmi er hins vegar þokkaleg. Gestur segir helst áhyggjur af að erfitt gæti verið að flytja kjörgögn úr Grímsey.

Þar hefur kjörfundi vanalega lokið um hádegi, en heimilt er að loka þegar allir íbúar eyjarinnar hafa kosið. Verði vindur óhagstæður þannig að ekki verði siglt úr eynni vegna ölduhæðar né flogið þangað er þyrla Landhelgisgæslunnar til taks.

Gestur gerir ráð fyrir að lokatölur úr kjördæminu berist klukkan sex eða sjö á sunnudagsmorgun, en það er háð því að vel gangi að koma kjörgögnum norður til Akureyrar. Kjósendur eru því hvattir til að kjósa snemma.

Mikið um utankjörfundaratkvæði

Auk veðurs gætu utankjörfundaratkvæði tafið talningu, en ekki er hægt að byrja að telja þau fyrr en allar kjörskrár eru komnar norður. Utankjörfundarsókn hefur verið óvenjumikil, í fyrradag höfðu um 4000 manns kosið utankjörfundar í Norðausturkjördæmi. Það er um 15% allra sem kjósa. Miðað við að kjörsókn sé um 70% er að minnsta kosti fimmtungur allra þeirra atkvæði, sem talin verða, greidd utankjörfundar.

Gestur segir annars að undirbúningur kosninganna hafi gengið vel. „Það hafa ekki verið neinir erfiðleikar við að koma út kjörgögnum. Allur undirbúningur er búinn og nú bíðum við bara eftir að geta byrjað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.