Fá stöðugildi hjá austfirskum ferðaþjónustufyrirtækjum á síðasta ári

Árið 2021 ráku 94 austfirsk fyrirtæki ferðaþjónustu í fjórðungnum en þessi fjöldi fyrirtækja var einungis með 153 stöðugildi. Það merkir að mörg þessara fyrirtækja voru aðeins með einn eða tvo starfsmenn ellegar var mikið um hlutastörf að ræða.

Þetta má lesa á svokölluðu Mælaborði ferðaþjónustunnar sem er upplýsingavefur Ferðamálastofu um stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi á hverjum tíma fyrir sig.

Litlum vafa er undirorpið að Austurland hefur síðustu misserin náð vopnum sínum í baráttunni um ferðamenn sem hefur fjölgað ört hérlendis eftir að takmörkunum vegna Covid-19 var aflétt. Ekki aðeins hefur Vök Baths náð fótfestu og umtali svo eftir er tekið heldur og fjölgar statt og stöðugt þeim ferðamönnum sem sækja hið fagra Stuðlagil á Jökuldal en sá staður hefur á skömmum tíma orðið vinsælasti ferðamannastaður Austurlands. Þá hefur ekkert minnkað aðsókn ferðafólks að Hengifossi nema síður sé.

Þessar tölur á Mælaborðinu gefa mynd af síðasta ári en þá voru harla miklar takmarkanir bæði hér og annars staðar vegna faraldursins. Fastsetja má að fleiri ferðaþjónustufyrirtæki með fleiri starfsmenn verði á skrá yfirstandandi árs þegar hún verður birt.

Arðsemi eigin fjár þessara 94 fyrirtækja í ferðaþjónustu á Austurlandi 2021 nam 31,7%. Það töluvert undir arðsemi eigin fjár ferðaþjónustufyrirtækja á norðausturlandi sem náðu rétt tæplega 50% arðsemi eigin fjár á sama tíma að meðaltali. Það hins vegar verulega umfram arðsemi eigin fjár slíkra fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu hvers arðsemi á síðasta ári nam aðeins um 4%.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.