Skip to main content

Fækkun skipafarþega að Skriðuklaustri afleiðing aukins úrvals ferðamöguleika í fjórðungnum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. feb 2025 13:37Uppfært 05. feb 2025 15:20

Töluvert fækkaði í hópi farþega af skemmtiferðaskipum sem lögðu leið sína á hinn merka stað Skriðuklaustur í Fljótsdal á síðasta ári en árið þar á undan. Nam sú fækkun rúmlega 30 prósentum.

Þessi staðreynd var meðal þess sem fram kom í máli forstöðumanns Skriðuklausturs, Skúla Björns Gunnarssonar, á sérstöku málþingi sem haldið var í síðasta mánuði undir yfirskriftinni Söfn, sögustaðir og skipafarþegar - áskoranir og tækifæri. Þar var farið ofan í saumana á hversu mikilvægir skipafarþegar hafa orðið hinum fjölmörgu íslensku söfnum í grennd við helstu hafnir landsins.

Til marks um mikilvægið fyrir Austurland sérstaklega reyndust skipafarþegar hvorki meira né minna en 68 prósent allra gesta á Tækniminjasafnið á Seyðisfirði síðasta ár og um 4 prósent þeirra sem ráku inn nefið í Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum. Skriðuklaustur sóttu rétt tæplega 4 þúsund manns síðasta ár, sem þrátt fyrir fækkun frá árinu áður, er hlutfallslega stór hluti allra gesta þangað.

Færri skipakomur hafa áhrif

Skipakomunum fækkaði lítillega milli áranna 2023 og 2024 en fyrrnefnda árið var og er enn metár bæði í fjölda skipa og fjölda farþega. Meiri fækkun skipakoma er fyrirséð á yfirstandandi ári en megin tímabil skemmtiferðaskipa hér við land er yfir sumarmánuðina.

Færri skipakomur eru þó aðeins ein ástæða færri gesta að Skriðuklaustri að mati Skúla Björns en gestum þangað af skemmtiferðaskipum fækkaði um rúmlega 1700 manns í fyrra frá árinu áður.

Ein helsta ástæða þess að fækkunin er svo drjúg að Skriðuklaustri að mati Skúla Björns hefur þó meira með það að gera að úrval ferða og áfangastaða hefur aukist hröðum skrefum.

„Skemmtiferðaskip byrja að koma á Austurland töluvert fyrr en 2017. Þau byrja að koma til Seyðisfjarðar fyrir einum 20 árum en þá var kannski ekki margt annað í boði en að keyra bara Fljótsdalshringinn. Þá vorum við nánast alltaf með og ég gæti trúað að þá höfum við fengið um 80 prósent af þeim farþegum sem komu í höfn á Seyðisfirði og þeir komu þá líka við á Skriðuklaustri. Svo fer þetta allt vaxandi og fyrst og fremst á Seyðisfirði en þá hefur Djúpavogur verið að sækja sig dálítið á þessum síðustu árum.“

Stóraukið úrval afþreyingar og ferða

Meira úrval ferða á fleiri spennandi staði er meðal þess sem hefur haft áhrif á gestakomurnar í Fljótsdal.

„Það er, meðal annars, vegna þess að það eru í boði fleiri ferðir en það er einmitt það sem verið hefur lögð áhersla á fyrir austan að hafa fleiri ferðir sem mönnum bjóðast að fara. Fljótsdalshringurinn er því ekki lengur það eina sem er í boði heldur er fullt af öðrum ferðum. Hins vegar á Djúpavogi er verið að keyra alveg suður í Jökulsárlón og síðan inn í Berufjörð en hjá okkur er þetta svona helst upp í Héraðið. Til dæmis, vinsælasti ferðamannastaðurinn austanlands núna [Stuðlagil] að það er of langt í hann fyrir skemmtiferðaskipafarþegana sem hingað koma á Seyðisfjörð. Það er of tæpt að fara þangað og sérstaklega tæpt að fara með svona stóra hópa og margar rútur þangað. En á síðasta ári urðu svolitlar breytingar. Við á Austurlandi höfum ekki farið í svona góða þarfagreiningu eins og þeir hafa gert vestur á Snæfellsnesinu. Okkur vantar svolítið upp á það en það varð sú breyting á síðasta ári að Seyðfirðingarnir tóku þetta dálítið í sínar hendur þar sem þeir eru að sýsla með skipin sem að koma í Seyðisfirði og á Djúpavogi voru það heimamenn þar sem lögðu svona línurnar um hvernig þetta er. Það er verið að leggja meiri áherslu á það að hafa eitthvað ofan af fyrir fólkinu innan fjarðarins og nærsvæðisins getum við sagt. Frekar heldur en drífa fólk bara upp í rútur og keyra bara eitthvað burt.“

Góð þróun þrátt fyrir allt

Skúli Björn segir þessa þróun af hinu góða þó vissulega sé um fækkun að ræða á hans vinnustað að Skriðuklaustri.

„Allt er þetta góð þróun að mínu mati en auðvitað viljum við samt fá einhverja til okkar. Á Skriðuklaustri geta þetta orðið dálítið annasamir dagar þegar skemmtiferðaskipin koma. Það snýst um að stundum er þar um að ræða fjandi stór skip. Að mínu mati þá eru þessi stærstu skip sem koma, og ég hef alltaf gagnrýnt það, eru bara of stór fyrir innviðina fyrir austan. Það allt í lagi á Akureyri en að koma inn í Seyðisfjörð og flytja fólkið út um allt reynir á og það jafnvel þurft að fá til rútur úr öðrum landshlutum, fljúga leiðsögumönnum að og þetta bara sprengir innviðina. Það gerir það líka á áfangastöðunum.“

Kallar á meiri stýringu ferðafólksins

Nokkuð brýnt er segir Skúli Björn að Austfirðingar nái betur að halda utan um og stýra ferðalögum skipafarþeganna. Illt sé til dæmis að fá allt að fimmtán rútur af stærstu skipunum á sama tíma og fjöldi Íslendinga sé að nýta sér góða veðrið fyrir austan.

„Hjá okkur á allra stærstu dögunum höfum við verið að fá þetta fjórtán til fimmtán rútur að Skriðuklaustri. Hjá okkur er það svolítið mikið en við erum samt sem áður með ágæta aðstöðu til þess að taka móti stórum hópum að Skriðuklaustri. Snæfellsstofa er þarna rétt hjá þannig að rúnturinn hjá skemmtiferðaskipafarþegum sem koma á Klaustur er að stíga út hjá Snæfellsstofu og þá er búið að segja þeim að þau geti gengið yfir í Skriðuklaustur, skoðað sýningar um Gunnar [Gunnarsson], klaustrið sjálft og minjasvæðið þar rétt fyrir neðan. Þannig að þessar 45 mínútur sem er svona meðaltíminn stoppað er á staðnum er hægt að skoða ýmislegt á þeim tíma. En þegar það er fullt bílaplanið af Íslendingum [...] þá er dálítið mikið að fá margar rútur í einu af skemmtiferðaskipafarþegum ofan á allt hitt. Það svona sem við höfum verið að tala um fyrir austan að ná aðeins betri tökum á þessu og stýra þessu.“