Fagradal lokað klukkan ellefu í kvöld
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. jan 2025 21:42 • Uppfært 17. jan 2025 21:44
Gular viðvaranir verða í gildi vegna veðurs á bæði Austurlandi og Austfjörðum til hádegis á morgun. Óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna snjóflóðahættu á Fagradal og verður vegurinn lokaður í nótt.
Viðvörunin fyrir Austfirði tekur gildi klukkan 22 í kvöld og þar er spáð norðaustan 13-23 m/s með talsverðri snjókomu og skafrenningi.
Á Austurlandi tekur viðvörunin gildi á miðnætti. Þar er spáð norðaustan 13-20 m/s og talsverðri snjókomu. Viðbúið er að færð spillist, einkum á fjallvegum.
Samkvæmt veðurspám dregur úr úrkomu eða styttir upp þegar líður á morgundaginn og dregur úr vindi. Framtíðin er hins vegar ekki glæsileg. Á sunnudagsmorgun brestur aftur á með snjókomu eða slyddu og hvassviðri um allt svæðið og er útlit fyrir að það standi út mánudag.
Í yfirliti frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar segir að viðbúið sé að snjór safnist í gil þegar líður á nóttina. Almennt er snjólétt til fjalla en þó gamalt harðfenni víða í giljum og upptakasvæðum snjóflóða. Ekki er búist við snjóflóðahættu í byggð en viðbúið að hætta geti skapast til fjalla. Þess vegna hefur vöktun verið aukin.
Óvissustigi vegna snjóflóða á Fagradal var lýst yfir klukkan 21:20 í kvöld og ákveðið að loka veginum frá klukkan 23:00. Staðan verður endurmetin í fyrramálið. Vegagerðin varar við að aðrir fjallvegir kunni að lokast með skömmum fyrirvara.