Farið að bera á afbókunum skemmtiferðaskipa í austfirskar hafnir

Yfirhafnarvörður Seyðisfjarðarhafnar, vinsælustu skemmtiferðaskipahafnar Austurlands, staðfestir að farið er að bera á afbókunum slíkra skipa næstu tvö árin.

Ástæður afbókana skipa eru almennt ekki gefnar upp að sögn Rúnars Gunnarssonar, yfirhafnarvarðar, en sjálfur reiknar hann með að hert gjaldtaka sé ein ástæðan fyrir slíkum ákvörðunum.

Áform stjórnvalda um afnám tollfrelsis fyrir skipin auk sérstaks innviðagjalds á allar slíkar komur eiga að taka gildi um næstu áramót að óbreyttu en óskir hagsmunaaðila um frestun slíkrar ákvörðunar meðan lagt er mat á efnahagslegar afleiðingar hertrar gjaldtöku hafa ekki verið teknar til greina eins og fram hefur komið í aðsendum greinum sveitar- og hafnarstjóra Múlaþings, Björns Ingimarssonar, undanfarið.

Með afnámi tollfrelsis sem taka á gildi 1. janúar næstkomandi verður 60%, af nú þegar bókuðum komum til hafna Múlaþings, stefnt í hættu. Útgerðir minni skipanna eru nú þegar farnar að leita á önnur mið vegna þessa ef marka má samtöl við útgerðirnar nýlega.Eitt alvarlegasta dæmið um hvernig bókanir eru í hættu er Celebrity Cruises árin 2026 - 2028, en þau hafa bókað um 80 komur til Seyðisfjarðar og Djúpavogs, þar yrði tekjutapið um 320 milljónir eða rúmar 100 milljónir á ári frá þessu eina skipafélagi sem ætlar að gera út hringsiglingar þessi ár. Hver koma skilar 4 milljónum í hafnarkassann samkvæmt verðskrá ársins í ár.

Hvert og eitt stærri skemmtiferðaskipa sem í hafnir Múlaþings kemur greiðir um fjórar milljónir króna í hvert skipti. Afbókanir myndu því strax hafa stór fjárhagsleg áhrif.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar