Skip to main content

Farið í tiltekt og lagfæringar á Stöðvarfirði á morgun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. feb 2025 20:54Uppfært 06. feb 2025 20:55

Starfsmenn þjónustumiðstöðvar Fjarðabyggðar og Fjarðabyggðarhafna fara í fyrramálið á Stöðvarfjörð til að aðstoða við tiltekt og lagfæringar til bráðabirgða eftir ofsaveðrið í dag.


Flest sem fokið gat á Stöðvarfirði gerði það í dag. Meira en tugur húsa er skemmdur. Ekki var nóg með að vindur svipti þakplötum af heldur hellirigndi í kjölfarið og hafa því líka einhverjar skemmdir orðið vegna vatns.

Víða í bænum er brak sem hefur fokið og brýnt að fjarlægja það þannig það valdi ekki frekari skaða. Þá urðu skemmdir í höfninni, landgangur féll niður og fleira sem þarf að laga.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, segir að farið verði af stað í fyrramálið og geti íbúar látið vita ef þeir þurfa aðstoð. Hann segir mikið foktjón á staðnum.

Íbúar eru hvattir til að hafa samband við tryggingafélög sín en Náttúruhamfaratrygging Íslands veitir takmarkaða vernd þar sem um foktjón er að ræða.

Hættustigi almannavarna var aflétt á Austfjörðum á níunda tímanum í kvöld.

Mynd: Aðsend