„Farsæld hefur alltaf fylgt útgerð á Berki“ – Myndir
Tekið var formlega á móti nýjum Berki NK hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað með athöfn í gær. Skipið er það fimmta í röðinni sem ber þetta nafn.Fyrsti Börkur var smíðaður árið 1966 í Noregi. Hann var 255 lestir að stærð með 800 hestafla vél og gat borið 300 tonn að afla.
Nýjasti Börkur kemur frá Karstensens skipasmíðastöðinni í Danmörku. Hann er 88 metra langur, 16,6 metra breiður, tankarýmið er 3400 tonn og tvær 3600 Watta vélarnar skila samanlagt afli upp á 10.000 hestöfl.
Þetta er annar Börkurinn sem smíðaður er nýr fyrir Síldarvinnsluna og sjöunda skipið alls sem hún fær nýtt.
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, sagði í ávarpi sínu hafa fundið fyrir mikilli eftirvæntingu fyrir komu skipsins, víðar en í Neskaupstað. „Farsæld hefur alltaf fylgt útgerð á Berki. Við trúum og treystum á að það verði um ókoma framtíð,“ sagði hann.
Samið í sumarfríinu
Samið var um smíði skipsins 21. ágúst árið 2018 en Gunnþór sagði að þá hefði um nokkra hríð verið horft til Karstensens til hugsanlegrar nýskíði. „Við höfðum horft öfundaraugum á ný og glæsileg skip smíðuð þar koma siglandi, en við teljum Karstesens langbesta í sínu fagi.“
Hjólin tóku að snúast í sumarfríinu hans það árið. „Við hjónin höfðum verið í ánægjulegu sumarfríi í Skagen fyrri hluta ágústmánaðar. Á laugardagsmorgni heimsótti ég framkvæmdastjórann Knud Karstensen á skriftstofu hans, fékk kaffibolla, við skoðuðum skip sem vorum í smíðum og fórum yfir stöðuna.
Þegar ég kom út hringdi ég í stjórnarformanninn Þorstein Má Baldvinsson, sagði honum að allt liti vel út og sennilega væri hægt að smíða skip. Hann var kominn út á mánudegi og tók þátt í sumarfríinu okkar. Svona gerast góðir hlutir, stundum þarf að taka ákvarðanirnar hratt.“ Pöntunin var reyndar fyrir tveimur skipum en í apríl kom nýr Vilhelm Þorsteinsson til heimahafnar á Akureyri, en Vilhelm er systurskip Barkar.
Grænasta skip Karstensens
Gunnþór sagði vinnu og hönnun nýja Barkar hafa gengið vel með aðstoð frá starfsmönnum Samherja, Karstensens og Síldarvinnslunnar. Meðal annars hefði áhöfnin lagt til margar góðar hugmyndir. Karl Jóhann Birgisson, rekstrarstjóri útgerðar, var mikið í Danmörku til að halda utan um verkið, sem var hans síðasta fyrir Síldarvinnsluna.
Gunnþór sagði að öll hönnun skipsins miðaði að því að minnka olíunotkun og útblástur. „Skipasmiðurinn sagði að þetta væri grænasta skip sem hann hefði smíðað,“ sagði hann. Hann lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi samfélagsins fyrir farsæld Síldarvinnslunnar en við athöfnina veitti fyrirtækið styrki upp á átta milljónir króna til félagasamtaka í bænum. Þrjár milljónir runnu til kaupa á nýju björgunarskipi, Hafbjörgu sem væntanleg er um næstu helgi, tvær milljónir fóru annars vegar til björgunarsveitarinnar Gerpis, hins vegar Hollvinasamtaka sjúkrahússins og loks ein milljón til Lúðrasveitarinnar sem lék við athöfnina.
Flaskan keypt fyrir Börk
„Þetta er risastór dagur í sögu þessarar byggðar og íslensks sjávarútvegs,“ sagði Þorsteinn Már í ávarpi sínu. „Þetta skip er hlaðið besta búnaði sem völ er á,“ bætti hann við.
Anna Margrét Sigurðardóttir, eiginkona Gunnþórs, gaf Berki nafn með að brjóta kampavínsflösku á skrokk skipsins, eins og hefð er. Flaskan var keypt af Þórði Matthíasi Þórðarsyni, fyrrum skrifstofustjóra Síldarvinnslunnar, fyrir rúmum 20 árum þegar eldri Börkur var að koma úr vélarskiptum í Englandi. Þórður, sem lést árið 2016, bað um að flaskan yrði geymt þar til nýtt skip fengið nafnið Börkur.
Að athöfn lokinni fengu gestir að fara um borð og skoða skipið. Það var einnig í boði á laugardag en í frétt á vef Síldarvinnslunnar kemur fram að á annað þúsund manns hafi þegið það.