Skip to main content
Mynd: Nornasetrið

Ferðamenn vilja flúra sig með rollum og lunda

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. okt 2025 16:46Uppfært 07. okt 2025 16:47

Hertha María Richardt Úlfarsdóttir vinnur að því að innrétta húðflúrstofu undir merkjum Nornasetursins í Fjárhúsunum í Fellabæ. Hertha hefur verið með starfsemi þar af og til í haust og er ánægð með viðtökurnar.

Hertha er lærður myndlistarmaður en húðflúr hvers kyns hafa heillað hana um langt skeið. „Ég fór í myndlistina og lauk því námi en mér fannst alltaf spennandi að læra húðflúrun og gekk bara í það fyrir nokkru,“ segir Hertha.

Hún er með annan fótinn fyrir austan en hinn á höfuðborgarsvæðinu og því er stofan hennar í Fellabæ aðeins opin viku og viku. „Frænka mín stofnaði þetta flotta handverkssetur í Fellabænum, undir heitinu Fjárhúsin, og þar fékk ég eitt rými undir mína starfsemi sem er miklu sjálfbærara en að reyna að reka heila stofu ein. 

Hugmyndin er hálft í hvoru líka að eiga afsökun til að fara austur eins oft og hægt er. Þaðan er ég og þá get ég heimsótt fólkið mitt. Það er mjög erfitt sem verktaki á höfuðborgarsvæðinu að réttlæta að taka sér frí en með þessu móti gengur það upp.“

Flakkar um með flúrið

Það fer kannski ekki hátt en fyrir utan töluverðan áhuga margra Íslendinga á að skreyta sig með húðflúrum eru fleiri sem deila þeim áhuga að sögn Herthu.

„Mjög margir ferðamenn vilja fá sér einhvers konar flúr sem minnir á komuna hingað til lands. Það getur verið hitt og þetta en oftast er þar um að ræða einhver íslensk mótíf eins og rúnir, rollur eða lundar eða eitthvað því um líkt. Það er einmitt hugmyndin hjá mér að einbeita mér að myndum sem eru táknrænar fyrir Austurlandið.“

Hún ferðast reyndar víða um og hefur síðustu mánuði meðal annars boðið upp á húðflúr í Norwich á Englandi, Edinborg í Skotlandi og Dyflinni á Írlandi. Á heimasíðu Nornasetursins kemur einnig fram að stefnt sé á að fá gestaflúrara á stofuna í Fellabæ.


Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.