Fíkniefnamál ekki verið færri austanlands um margra ára skeið
Umferðalaga- og hraðakstursbrotum fækkaði nokkuð duglega austanlands á liðnu ári og ekki hafa færri fíkniefnabrot verið skráð í fjórðungnum um árabil.
Ofangreint meðal þess sem lesa má út úr bráðabrigðatölum Lögreglunnar á Austurlandi um helstu málaflokka embættisins á nýliðnu ári. Heilt yfir má segja að brotafjöldi í velflestum flokkum sé kringum meðaltalið síðustu ára og engin áberandi stór stökk upp né niður samkvæmt tölfræðinni.
Tvennt sérstaklega er þó hvað eftirtektarverðast samanborið við fyrri ár. Einungis 15 fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á síðasta ári og hafa ekki verið færri í langa hríð. Fækkun þeirra mála sérstaklega merkileg samanborið við árið 2019 þegar 48 slík mál lentu á borði lögreglumanna en þessum málum fækkað nánast jafnt og þétt síðan þá.
Annað sem telja má jákvætt er hve fjöldi umferðarlaga- og hraðakstursbrota fækkar mikið milli áranna 2023 og 2024. Umferðarlagabrotin 2023 voru tæplega 1.400 talsins en fjöldi þeirra mála á síðasta ári var 1.049. Það fækkun um rúm 24%. Árið 2023 brutu 966 einstaklingar af sér með hraðakstri en fjöldinn á nýliðnu ári 743 talsins. Það litlu minni fækkun milli ára eða rúmlega 23%. Þá hafa umferðarslys í umdæminu ekki verið færri í fjögur ár.
Umferðartölurnar eru sérstaklega marktækar því talningar sýna að umferð á vegum Austurlands á síðasta ári var mikil til sú sama og hún mældist 2023. Það því fækkun slysa og brota þó umferðarþungi sé hinn sami.