Fimm skip til loðnuleitar í dag

Fimm skip, tvö rannsóknaskip og þrjú veiðiskip, halda í dag til loðnuleitar. Vonast er til að niðurstöður leiðangursins verði forsendur nýrrar ráðgjafar um kvóta þessarar vertíðar.

Í leiðangurinn fara rannsóknaskiptin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson auk veiðiskipanna Jónu Eðvalds og Ásgríms Halldórssonar frá Höfn og Heimaeyjar úr Vestmannaeyjum.

Veiðiskipin fara austur fyrir land meðan rannsóknaskipunum er ætlað að vera fyrir norðan land. Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir að fyrir norðan sé búist við mestu af loðnu.

Vonast er til að skipin nái að fara yfir mest af því svæði sem ætlað er að skoða í þessari viku þar sem brælu er spáð um næstu helgi. Niðurstöðurnar verða væntanlega grunnurinn að nýrri veiðiráðgjöf, væntanlegum lokakvóta, vertíðarinnar. Hvenær hún liggur fyrir veltur á hvernig leiðangurinn gengur. „Við reynum að koma nýrri ráðgjöf út sem fyrst,“ segir Guðmundur.

Árni Friðriksson kom inn til Ísafjarðar á föstudag eftir tíu daga úthald í leit að loðnu. Guðmundur segir lykilniðurstöður þeirrar ferðar hafa verið þá að loðnan væri ekki komin langt suður með Austfjörðum. Aðalgangan hafi verið austan við Kolbeinseyjarhrygg en loðna hafi líka fundist þaðan og vestur með Vestfjörðum.

„Þar er hrygningarloðna. Það er alls staðar eitthvað að sjá en við viljum lítið segja til um magnið því yfirferðin var það gróf,“ segir Guðmundur.

Loðnufrysting hafin í Neskaupstað

Í Neskaupstað hófst loðnufrysting á laugardag þegar grænlenska skipið Polar Ammassak kom þangað með 1.200 tonn. Á vef Síldarvinnslunnar er haft eftir skipstjóranum að loðnan hafi fengist austur af Langanesi og þar hafi verið töluvert verið af góðri loðnu. Polar fer aftur til veiða í dag en í gærkvöldi lét Barði úr höfn til loðnuveiða.

Undanfarna viku hefur samt mest verið veitt og landað af kolmunna eystra. Þrjú færeysk skip lönduðu hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði í síðustu viku, þar á meðal Ango sem þar til í sumar hét Hoffell og hafði þar heimahöfn. Jón Kjartansson kom með 1960 tonn til Eskifjarðar og Guðrún Þorkelsdóttir 1400 tonn til Vopnafjarðar.

Beitir, Hoffell, Aðalstinn Jónsson, Guðrún Þorkelsdóttir, Börkur og Víkingur eru meðal þeirra skipa sem eru við kolmunnaveiðar miðja vegu milli Færeyja og Skotlands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.