Skip to main content
Mjóeyrarhöfn er önnur stærsta vöruflutningahöfn landsins. Mynd: GG

Finna vaxandi áhuga á lóðum við Mjóeyrarhöfn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. okt 2025 10:44Uppfært 16. okt 2025 10:45

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur samþykkt að ráðast í innviðagreiningu fyrir Mjóeyrarhöfn. Formaður bæjarráðs segir mikið af lausu landi þar sem þurfi að skipuleggja þannig að það nýtist sem best.

„Við eigum þarna um 80 þúsund fermetra af lausum lóðum og finnum vaxandi áhuga á þeim. Þess vegna ætlum við að reyna að standa rétt að uppbyggingunni og meta framtíðarþörfina,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs.

Samningar við verkfræðistofuna Eflu hafa legið á borði nefnda sveitarfélagsins að undanförnu og voru samþykktir á fundi bæjarstjórnar fyrir viku. 

Á fundinum ræddi Ragnar hvernig Mjóeyrarhöfn væri ekki bara næststærsta viðskiptahöfn Íslands við Evrópu í magni, heldur þyrfti að taka stöðuna í tengslum við aukna umræðu um öryggis- og varnarmál. 

Fyrsti áfangi Mjóeyrarhafnar er höfnin eins og hún lítur út í dag. Þar er hins vegar búið að bæta við svæði með landfyllingum og áform eru um að bæta við þær auk þess að lengja hafnarkantinn. Ár er síðan framkvæmdaleyfi vegna annars áfanga var gefið út.

Nýja svæðið er deiliskipulagt en hluti greiningarvinnunnar er að meta hvort endurskoða þurfi það. Stefnt er að því að greiningin verði tilbúin fyrir árslok.