Fjarðabyggð tekur alfarið yfir rekstur Sjóminjasafns Austurlands
Til stendur að færa allan rekstur Sjóminjasafns Austurlands á Eskifirði undir stjórn Fjarðabyggðar en safnið hefur frá stofnun verið rekið sem sjálfseignarstofnun.
Stjórn Menningarstofu Fjarðabyggðar samþykkti yfirtöku á rekstri safnsins fyrr í vikunni en beiðni þess efnis barst beint frá stjórn Sjóminjasafnsins að fyrra bragði.
Að sögn Jóns Björns Hákonarsonar, formanns stjórnar Menningarstofu, gefur yfirtakan ágæt tækifæri til sóknar áfram í menningar- og safnamálum sveitarfélagsins en sérstök áhersla hefur verið á þau mál undanfarin tvö ár eða svo.
„Safnið hefur hingað til verið sjálfseignarstofnun en við hjá Fjarðabyggð meira og minna sinnt öllum rekstrinum nú um langa hríð eða 20 ár eða svo að því að mig minnir. Þannig að Sjóminjasafnið hefur lengi verið hluti af okkar safnakosti þó eigendaformið hafi formlega verið með öðrum hætti. Nú höfum við verið með sérstaka áherslu á söfnin okkar hin síðustu árin og langað að efla þann þátt í rekstri sveitarfélagsins og fara í sérstakt átak vegna þess. Þar meðal annars áhugi á að færa öll skjalasöfn okkar á einn og sama staðinn sem yrði á Eskifirði auk þess verkefnis í breyta og bæta Stríðsárasafninu sem brátt fer að hefjast. Þessi yfirtaka á Sjóminjasafninu fellur vel að þeim áætlunum. Ekki hvað síst sökum þess að Sjóminjasafnið er eina viðurkennda safnið okkar hér og með yfirtöku gæti það verið góður grundvöllur til að fá viðurkenningu á öllum hinum söfnum Fjarðabyggðar. Það er að segja að viðurkennt söfn eru söfn sem njóta að einhverju leyti ríkisstyrkja þó upphæðin til þess hafi nú ekki hækkað um margra ára skeið.“
Yfirtakan þarf að fara til samþykktar hjá bæjarráði en Jón Björn telur það nánast formsatriði. Búið sé að ræða þetta áður á þeim vettvangi og fólk almennt sammála um að þetta yrði jákvætt skref.
Hvað varðar gesti Sjóminjasafnsins þá ættu þeir ekki að verða varir við neitt ef yfirtakan gengur eftir. Safnið stendur fyllilega fyrir sínu í dag segir Björn og þar margir góðir, merkilegir og áhugaverðir gripir.
„Þessi aðgerð snýst um að koma safninu inn í safnarekstur Fjarðabyggðar og þannig verður hægt að efla þau öll eins og vilji er til. Að öðru leyti verða gestir ekki varir við neitt.“