Fjarðarheiðargöngin fyrst í röðinni hjá þorra oddvita framboða í Norðausturkjördæmi

Meirihluti oddvita þeirra tíu framboða sem bjóða fram í Norðausturkjördæmi til kosninga til Alþingis eru sammála um að Fjarðarheiðargöng skuli áfram vera númer eitt, tvö og þrjú í gangnagerð næstu ríkisstjórnar.

Þetta kom fram í sérstökum kjördæmaþætti RÚV sem sýndur var í gærkvöldi en þar sátu fyrir svörum allir oddvitar flokkanna sem fram bjóða krafta sína til Alþingis. Sömu aðilar koma einnig fram í Valaskjálf á opnum framboðsfundi sem Austurfrétt stendur að eftir slétta viku.

Eitt helsta umræðuefnið varðaði samgöngumál í Norðausturkjördæmi. Vildu þáttastjórnendur vita hvort oddvitarnir teldu að gerð Fjarðarheiðarganga ætti áfram að vera fyrsta mál á dagskrá í gangnagerð að kosningum loknum. Sú spurningin rataði reyndar aðeins til hluta gestanna meðan aðrir fengu almennari spurningar um samgöngukerfið í heild sinni og  fjármögnun vegaverkefna.

Þeir sem ekki voru í neinum vafa að Fjarðarheiðargöngin þyrftu að vera allra fyrsta jarðgangaverkefnið voru Ingibjörg Ísaksen frá Framsóknarflokki, Logi Einarsson frá Samfylkingunni, Sindri Geir Óskarson frá Vinstri grænum, Gunnar Viðar Þórarinsson frá Lýðræðisflokknum, Jens Garðar Helgason frá Sjálfstæðisflokki og Theódór Ingi Ólafsson frá Pírötum.

Aðrir frambjóðendur; Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hjá Miðflokknum, Sigurjón Þórðarson frá Flokki fólksins, Ingvar Þóroddsson frá Viðreisn og Þorsteinn Bergsson frá Sósíalistaflokknum fengu ekki sömu spurningu og svöruðu því hvorki af né til.

Flestir vilja blandaða leið við fjármögnun

Allir þátttakendur voru sammála um að gera þyrfti bragarbót á vegakerfinu í heild sinni og þar ekki síst í Norðausturkjördæmi þar sem ekki aðeins gangagerð hafi setið á hakanum heldur ekki síður viðhald og uppbygging. Þá voru langflestir á þeirri skoðun að byggja þyrfti næstu göng um leið og lokið yrði við þau fyrstu.

Sömuleiðis vildu oddvitarnir skoða blandaðar leiðir til fjármögnunar stærri verkefna; lántökur og eða tolla í fjármögnun bæði gangna, brúa og vegakerfisins í heild nema Þorsteinn Bergsson sem benti á að mun fátækari og fámennari þjóð hafi byggt upp allt vegakerfið á sínum tíma eingöngu fyrir skattfé. Enga tolla hafi þurft til að greiða það upp og þyrfti ekki nú.

Jens Garðar, Sigmundur Davíð og Sigurjón Þórðarson voru spenntir fyrir að taka Færeyringa og þeirra leiðir til fjármögnunar jarðganga til skoðunar og jafnvel brúks hér á landi. Hjá þeim nágrönnum eru alls tuttugu göng nú þegar, tvö í byggingu og ein fjórtán önnur á hugmyndastiginu þó þar búi aðeins 53 þúsund manns.

Sigmundur Davíð vildi skoða þann möguleika að skapa sérstakt félag utan um gangagerð í landinu enda gæti slíkt fyrirkomulag auðveldað hlutina. Bæði Gunnar Viðar og Sigurjón Þórðarson bentu á að ekki ætti að líta á vegaframkvæmdir sem kostnað heldur væri um fjárfestingu að ræða sem myndi skila öllum arði fyrr en síðar.

Ingibjörg benti á þá staðreynd að svo fámenn þjóð sem Íslendingar væru gæti aldrei sjálf greitt með skattfé allar þær framkvæmdir í samgöngukerfinu sem þörf sé á. Þörf sé á breytingum og að því hafi fráfarandi ríkisstjórn verið að vinna að.

Mynd: Skjáskot úr útsendingu RÚV frá Hofi á Akureyri í gærkvöldi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.