Skip to main content
Útlitið sem mæta mun gestum þegar fyrsta áfanga verksins er lokið má sjá á þessari tölvuteikningu en það er teiknistofan Stika sem hannað sýningar- og þjónusturýmið. Teikning Fjarðabyggð/Stika

Fjármagn tryggt í fyrsta áfanga endurbyggingar Stríðsárasafnsins

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. nóv 2025 10:08Uppfært 05. nóv 2025 10:12

Búið er að tryggja fjármagn til fyrsti áfanga endurbóta og uppbyggingar á Stríðsárasafninu á Reyðarfirði en undirbúningur að því að stækka og betrumbæta safnið hefur staðið yfir um skeið.

Fyrsti áfanginn, sem gert er ráð fyrir að hægt verði að opna strax næsta sumar, samanstendur af nýrri 80 fermetra stórri móttöku- og þjónustubyggingu safnsins auk nýs bragga sem verður sýningarskáli. 

Frá móttökuhúsinu verður innangengt inn í núverandi bragga og þaðan áfram með tengibyggingu inn í nýja braggahúsið. Nýi bragginn verður fyrsti sýningarsalur safnsins af þremur alls þegar verkinu lýkur. Opið verður úr báðum bröggunum á skjólsælt útisvæði þeirra á milli sem nýta má til margvíslegra tilefna í framtíðinni. Í þessum áfanga skal ennfremur framkvæma endurbætur á núverandi húsakosti safnsins.

Fjarðabyggð hefur þegar tryggt fjármagn til þessa fyrsta áfanga uppbyggingarinnar sem áætlað er að kosti tæpar 107 milljónir króna. Tæplega 50 milljónir fást í Fiskeldissjóði, rúmar 30 milljónir úr tjónabótasjóði og aðrar 30 milljónir frá Hamfaratryggingum.

Í kjölfarið skal svo hafist handa við annan áfanga verksins sem er stórt sýningarhús austan við núverandi bragga og einnig tengigangur þar á milli. Það sýningarhús skal hýsa stærri muni safnsins eins og bifreiðar og tæki ýmis. Lokaáfanginn er svo bygging annars nýs sýningarbragga vestan við þann sem rís í fyrsta áfanga og tvenn tengigöng þeirra á millum.