Skip to main content

Fjöldi íbúða í byggingu austanlands töluvert frá áætlaðri þörf

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. nóv 2024 09:32Uppfært 13. nóv 2024 09:34

Staða íbúðauppbyggingar á Austurlandi er ekki nógu góð að mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS.) Í liðnum september voru 114 íbúðir í byggingu í fjórðungnum en fjöldinn þyrfti að vera kringum 180 til að mæta þörfinni.

Stofnunin hélt fyrir nokkru fund um stöðu uppbyggingar og framtíðarhorfur í þeim málum í samstarfi við Austurbrú og Samtök iðnaðarins. Útreikningar HMS byggja annars vegar á niðurstöðum talninga sem gerðar eru reglulega og svo hins vegar á húsnæðisáætlunum sveitarfélaganna á svæðinu.

Öll austfirsku sveitarfélögin staðfestu húsnæðisáætlanir sínar á yfirstandandi ári en þar er, samkvæmt svokallaðri miðspá, gert ráð fyrir fjölgun íbúa um 834 á næstu fimm árum.

Talningar HMS benda þó til að aðeins 36 nýjar fullbúnar íbúðir komi á markað á næsta ári og um 55 fullbúnar íbúðir 2026. Fjöldi íbúða í byggingu nú jókst um 9% frá síðasta ári en gera þarf töluvert betur ef mæta skal húsnæðisþörfinni næstu árin.