Skip to main content

Fjórir Austfirðingar í fararbroddi við móttöku á fyrstu Airbus þotu Icelandair

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. des 2024 14:46Uppfært 05. des 2024 15:01

Fjórir uppaldir Austfirðingar voru í fararbroddi þegar Icelandair fékk sína fyrstu Airbus þotu afhenta í vikunni. Norðfirðingurinn Kári Kárason er yfirflugstjóri Airbus hjá Icelandair og stýrði vélinni þegar hún kom Íslands í fyrsta sinn.


„Við flugmennirnir komum að framleiðsluferlinu á allra síðustu stigum, þegar vélin í prófuð. Við förum í móttökuflug til að ganga úr skugga um að vélin skili því sem hún á að skila og öll kerfi, svo sem öryggis- og varnakerfi, séu í lagi.

Sjaldnast kemur neitt upp í þessu flugi en ef svo er þá er það lagað áður en hún er afhent formlega,“ segir Kári.

Icelandair tók formlega við vélinni frá verksmiðjum Airbus í Hamborg í Þýskalandi á þriðjudag. Auk Kára voru meðal annars í móttökunefndinni Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair sem alinn er upp á Eskifirði, Högni Helgason, forstöðumaður flotastýringar sem kemur af Héraði og Ívar Sigurður Kristinsson, framkvæmdastjóri fjármála en hann kemur frá Norðfirði.

Ljúka þjálfun á sunnudag


Kári var síðan við stýrið þegar vélinni var flogið heim til Íslands á miðvikudag. Vél á að fara í sitt fyrsta áætlunarflug þriðjudaginn 10. desember. Fram að þeim tíma eru flugvirkjar og flugfreyjur að kynnast vélinni og verið að ljúka þjálfun flugmanna.

„Við höfum verið í flughermi erlendis en þurfum síðan að fljúga ákveðið marga leggi. Við erum að ljúka því á sunnudag og stefnum þá að fljúga yfir Akureyri og Egilsstaði. Við verðum tveir sem ljúkum þá námi okkar sem þjálfunarflugstjóra og getum þá farið að þjálfa aðra flugmenn Icelandair.“

Kaflaskil í sögu Icelandair


Tilkoma Airbus þotunnar markar kaflaskil í sögu Icelandair sem í gegnum tíðina hefur notast við Boeing þotur. Icelandair fær þrjár aðrar vélar afhentar fyrir næsta sumar og þrjár aðrar veturinn 2025-6. Þrettán hafa verið pantaðar í viðbót en þær verða ekki afhentar fyrr en árið 2029.

„Ég hef flogið Boeing síðan árið 1997. Það eru frábærar vélar og ekkert upp á þær að klaga en Airbus hefur aðra nálgun og hannar vélarnar öðruvísi.Það er margt nýtt að læra fyrir þá flugmenn sem lengi hafa flogið Boeing vélum. Ég hef hins vegar talað við þó nokkra flugmenn sem hafa fært sig yfir á Airbus og þeir eru allir mjög ánægðir og vilja ekki snúa til baka, þótt það hafi tekið 1-2 ár að læra á Airbus og taka í sátt.

Það fer mjög vel um okkur flugmennina í vélinni og ég held að farþegar eigi líka eftir að verða mjög ánægðir með hana. Hún er hljóðlát, rúmgóð og snyrtileg.

Þrjátíu ár í fluginu


Kári er titlaður yfirflugstjóri eða „fleet chief Airbus“ hjá Icelandair. Í því felst að hann ber ábyrgð á Airbus vélum félagsins. „Icelandair er með einn yfirflugstjóra og undir honum er einn fyrir hverja gerð, Boeing 757, Boeing 737 og Airbus. Við erum ábyrgir fyrir okkar vélum, handbókum, starfsaðferðum og öðru tæknilegu sem tengist vélunum.“

Kári heldur í ár upp á 30 ára starfsafmæli í fluginu. „Ég byrjaði 1994 sem flugkennari og síðan að fljúga Fokker 50 innanlands hjá félaginu þann 6. mars árið 1995. Síðan var það tröppugangurinn, eftir það verður maður aðstoðarmaður á þotu, næst flugstjóri innanlands og loks flugstjóri á þotum,“ segir hann.

Austfirðingarnir taka á móti Airbus þotunni í Hamborg. Frá vinstri: Kári, Bogi Nils, Ívar Sigurður og Högni. Mynd: Icelandair/Árni Sæberg