Skip to main content
Aðeins meiri flokkun sorps en verið hefur raunin. Mynd AE

Fjórir flokkar úrgangs í Fjarðabyggð frá áramótum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. nóv 2025 10:32Uppfært 11. nóv 2025 16:49

Upp úr áramótum þurfa íbúar Fjarðabyggðar að flokka heimilissorp sitt í fjóra mismunandi flokka í samræmi við lög landsins. Markmiðið að draga úr því magni sorps sem fer til urðunar.

Þetta merkir að frá áramótum þarf að flokka plast í eina tunnu, pappír og pappa í aðra og þriðja tunnan verður tvískipt undir bæði blandaðan úrgang og lífrænan.

Munu íbúar verða varir við þessar breytingar síðla í desember en eftirleiðis verða því þrjár tunnur við hvert sérbýli en útfærslan við fjölbýlishús fer eftir aðstæðum á hverjum fyrir sig að sögn Haraldar Líndals Haraldssonar upplýsingafulltrúa sveitarfélagsins.

„Það er verið að leggja lokahönd á útfærsluna og kynningarstarf að hefjast. Við munum svo auglýsa þetta betur þegar nær dregur áramótum svo ekkert fari milli mála. Íbúar þurfa í raun ekkert að aðhafast vegna þessara breytinga sjálfir.“

Þær tunnur sem þegar eru til staðar við heimili verða notaðar áfram en við bætist sú tvískipta áður en að þessu kemur. Sveitarfélagið sjálft mun sjá um að afhenda viðbótartunnur ef þess þarf. Íbúar geta jafnframt óskað eftir körfu undir matarleifar en bréfpoka er sem fyrr hægt að kaupa í flestum matvöruverslunum.