Fjórir meiddir eftir árekstur á Fagradal
Loka þurfti veginum yfir Fagradal í dag eftir árekstur. Fjórir einstaklingar meiddust í slysinu en enginn alvarlega. Björgunarsveitir aðstoðuðu ferðalanga ofan af Fjarðarheiði en í óhöppum þar urðu ekki meiðsli á fólki.
Tveir bílar, sem komu úr gagnstæðum áttum, skullu saman á Fagradal um klukkan hálf tvö í dag. Annar bíllinn hafnaði utan vegar. Báðir voru óökufærir eftir slysið.
Fjórir einstaklingar, tveir úr hvorum bíl, voru fluttir meiddir á heilsugæsluna á Egilsstöðum til skoðunar, þar af var einn tekinn til frekari skoðunar. Meiðsli hans munu þó ekki vera alvarleg.
Vegna óhappsins var vegurinn lokaður í um einn og hálfan tíma. Aðstæður voru vondar, afar blint vegna skafrennings.
Fjarðarheiði opin á ný
Fjarðarheiði var lokuð frá klukkan tíu í morgun fram undir klukkan þrjú í dag vegna skafrennings og bíla sem lentu í vanda. Félagar úr björgunarsveitum frá Reyðarfirði, Jökuldal og Seyðisfirði fóru til aðstoðar og hjálpuðu fólki úr 5-6 bílum niður. Engin slys urðu þar á fólki. Sveitirnar voru kallaðar út um klukkan 10:30 og var verkefnum þeirra lokið um klukkan 14.
Vegurinn var opnaður aftur í kjölfarið með svokallaðri mjúkri lokun. Hún felur í sér að starfsmenn Vegagerðarinnar eru við lokunarpósta og snúa þar frá bílum sem ekki eru búnir fyrir þær vetraraðstæður sem eru á heiðinni.
Þá kom Björgunarsveitin Gerpir til aðstoðar í Fannardal í morgun þar sem bíll hafði farið út af.