Fleiri oddvitar NA-kjördæmis vilja fjölga kjördæmum en fækka

Nýverið fjallaði Austurfrétt um erfiðleika Austfirðinga innan Norðausturkjördæmis síðastliðinn áratug. Í gamla Austurlandskjördæminu, sem sameinaðist Norðurlandskjördæmi eystra í upphafi aldar, áttu Austfirðingar fimm þingmenn tryggða.

Ef tekið er mið af framboðslistum stjórnmálaflokka í NA-kjördæmi í ár og þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið í vor og sumar er nú raunverulegur möguleiki að enginn Austfirðingur verði á Alþingi næsta kjörtímabil og yrði það því í fyrsta sinn í lýðveldissögunni.

Langvarnadi deilur
Um langan tíma hefur verið karpað um kjördæmaskipan, ekki síst eftir að kjördæmin stækkuðu fyrir alþingiskosningarnar árið 2003. Vilja sumir gera Ísland að einu kjördæmi en aðrir að halda í sama horf eða jafnvel fjölga kjördæmum aftur.

Þeir sem tala fyrir því að Ísland verði eitt kjördæmi vilja þar með jafna atkvæðisvægi allra Íslendinga en með þeirri kjördæmaskipan sem nú er við líði vega atkvæði kjósenda í Norðvesturkjördæmi mest og kjósenda í Norðausturkjördæmi næst mest.

Þeir sem tala fyrir fjölgun kjördæma telja að nauðsynlegt sé fyrir landið að hvert og eitt svæði landsins eigi sína þingmenn og telja að með því verði hagsmunir allra landsmanna betur tryggðir.

Árið 2012 var kosið um tillögur stjórnlagaráðs að breytingum á stjórnarskrá og kaus fólk þá m.a. um spurninguna: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“ Kosningin fór svo að 2/3 hluti þeirra sem kusu í þjóðaratkvæðagreiðslunni kusu með því að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt.

Frá því að niðurstöður úr atkvæðagreiðslunni um stjórnarskrána lágu fyrir hafa verið uppi langvarandi deilur um hvernig eigi að afgreiða það mál. Katrín Jakobsdóttir lagði fram fraumvarp um málið, sem þingmaður en ekki forsætisráðherra, á nýliðnu þingi en hafði ekki erindi sem erfiði.

Búast má við því að aukinn þungi muni færast í umræður um kjördæmaskipan og vægi atkvæða á næsta kjörtímabili. Í síðasta mánuði var samþykkt frumvarp Steingríms J. Sigfússonar um kosningalög. Var það frumvarp að mestu tæknilegs eðlis og náði ekki til kjördæmaskipan eða vægi atkvæða. Þá lagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fram frumvarp um jöfnun atkvæða í fyrra en það komst skammt á veg.


Þá kallaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, nýverið á grundvallaendurskoðun á kosningalöggjöfinni og kjördæmaskipan. Talaði Bjarni þá um fjölgun á kjördæmum úti á landi og sagði við fréttastofu Stöðvar 2: „Ég finn til dæmis fyrir því þegar ég fer um landið að fólki finnst kjördæmin of stór og ef ég nefni að skera landsbyggðarkjördæmin í tvennt, fellur mönnum það mjög vel í geð. Menn fengju þannig meiri nálægð við sína fulltrúa á þingi og það fyndist mér alveg koma til greina.“

Austurfrétt leitaði svara hjá oddvitum Norðausturkjördæmis hver stefna þeirra væri varðandi kjördæmaskipan landsins.

Þau sem vilja fjölga
Þrír oddvitar í NA-kjördæmi vilja fjölga kjördæmum á Íslandi en það eru þau Óli Halldórsson, oddviti Vinstri grænna, Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörg Ólöf Isaksen, oddviti Framsóknar. Með öðrum orðum ríkisstjórnarflokkarnir.


„Ég hef enga trú á að gera Ísland að einu kjördæmi. Ég hallast að því að skýrt umboð úr kjördæmum um land allt sé einn af hornsteinum lýðræðiskerfisins okkar. Ef gera ætti einhverjar breytingar á kjördæmaskipan þá teldi ég raunar farsælla að fjölga þeim frekar en fækka,“ segir Óli Halldórsson um málið.


Undir þetta tekur Ingibjörg Ólöf Isaksen. „Ef eitthvað væri þyrfti hugsanlega að fjölga kjördæmum því það er mjög mikilvægt að ná fram vilja fólksins og að þeir alþingismenn sem veljast hverju sinni nái að fylgja eftir og vinna að hagsmunum umbjóðenda sinna,“ segir Ingibjörg.


Njáll Trausti Friðbertsson vill horfa til þess að fjölga kjördæmunum vegna þess hve stór þau eru nú. „Kjördæmin eru landfræðilega mjög stór og með því að fjölga þeim yrðu kjörnir fulltrúar á þingi nær sínum kjósendum og betur tengdir sínu svæði.“

Þau sem vilja fækka
Tveir oddvitar Norðausturkjördæmis vilja leggja alla áherslu á jöfnun á vægi atkvæða en það eru Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Eiríkur Björn Björgvinsson, oddviti Viðreisnar.


Logi segir að tryggja þurfi það að þingið vinni sem best fyrir alla landsmenn og því þurfi kerfið að vera lýðræðislegt, bendir hann á þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 2012 í þeim efnum. „Samfylkingin hefur það í stefnu sinni að laga misvægi atkvæða og landið verði eitt kjördæmi [...] Þótt margt sé áhugavert við að fjölga kjördæmum t.d. á Norður- og Austurlandi, er ég ekki viss um að það yrði gæfuspor, enda eiga íbúar Norðausturkjördæmis margt sameiginlegt og hafa hagsmuni af því að sameina krafta sína á þingi,“ segir Logi.


Eiríkur Björn telur að full ástæða sé til þess að endurskoða kjördæmaskipan landsins. „Í tengslum við breytingar á kjördæmaskipan vil ég taka umræðuna um að efla sveitarstjórnarstigið og koma meira valdi til íbúanna,“ segir Eiríkur sem vill ekki gefa upp með hvaða hætti nákvæmlega kjördæmaskipan ætti að vera en vísar í að Viðreisn muni leggja lokahönd á stefnu sína í málinu á landsþingi flokksins í ágúst.


Einar Brynjólfsson, oddviti Pírata, vill ekkert hrófla við kjördæmaskipan landsins eins og er en telur þó vænlegast að gera Ísland að einu kjördæmi í framtíðinni þegar landsbyggðin er orðin sjálfbær í allri grunnþjónustu.

Haft var samband við alla flokka sem eiga sæti á Alþingi eða hafa birt framboðslista í kjördæminu fyrir komandi kosningar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson svaraði ekki fyrirspurnum frá Austurfrétt þrátt fyrir ítrekanir. Enginn oddviti er sem stendur hjá Flokki fólksins í NA-kjördæmi, fyrirspurnir voru sendar á Ingu Sæland, formann flokksins, en ekkert svar barst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar