Fleiri spurningar en svör á vindorkufundi í Fljótsdal

Það var þéttsetið á öðrum íbúafundinum vegna hugmynda um byggingu vindorkugarðs í sveitarfélaginu Fljótsdal í gærkvöldi en þar voru fyrir svörum forsvarsmenn verkefnisins, Copenhagen Infrastructure Partners (CIP), landeigendur sem sýnt hafa áhuga að taka þátt, forsvarsmenn sveitarfélagsins auk þess sem skipulagsfræðingur fór yfir stjórntæki sveitarfélaga miðað við núgildandi rammaáætlun í orkumálum.

Sjálfsagt að kynna sér málin

„Við fengum að upplifa að vera í návígi við vindmyllur í Monegros á Spáni og sjálfur varð ég lítið var við hávaða frá þeim myllum, það var helst þegar verið var að snúa þeim sem það heyrðist töluvert ískur en okkur skildist að það væri meira vegna viðhaldsleysis sem það væri,“ sagði Gísli Örn Guðmundsson, einn landeigenda, sem stóð fyrir sérstakri skoðunarferð til Monegros á Spáni en það er einn þeirra vindorkugarða sem CIP á og rekur. Sá garður samanstendur af tólf vindmyllum en eru töluvert aflminni og lægri en ráðgert er að reisa í Fljótsdalshreppi.

Gísli, sem var fyrsti ræðumaður á fundinum, sagði förina hafa verið góða og hann sjálfur væri mikið nær um vindmyllur og starfsemi vindmyllugarða í kjölfarið. Hópurinn heimsótti einnig sveitarfélagið á þeim stað þar sem viðræður áttu sér stað en illa gekk þó að fá skýr svör um beinan ávinning sveitarfélagsins sjálfs sem og landeigenda á svæðinu sökum trúnaðar.

Gísli þvertók fyrir að vera búinn að ákveða eitt né neitt þó samkomulag hafi verið gert við CIP. Hann benti á að það væri takmarkað upp úr skógrækt og vinnslu að hafa og það væri ósköp sjálfsagt fyrir skógarbændur að skoða alla möguleika á að bæta sinn hag.

Gísli viðurkenndi að hluti ferðarinnar hefði verið skipulagður af hálfu CIP og Helgi Gíslason, sveitarstjóri, bætti við að ekki hefði verið reynt að ná tali af gagnrýnendum í ferðinni. Til þess hefði ekki verið neinn tími.

Allt í byrjunarfasa

Anna-Lena Jeppsson frá CIP og ráðgjafi CIP hérlendis, Magnús Bjarnason, fóru yfir stöðu málsins frá sjónarhóli danska fyrirtækisins. Þar kom fram að verkefnið væri eitt af átta talsins á heimsvísu þar sem framleiðsla rafeldsneytis væri markmið CIP en sú framleiðsla er fyrirhuguð í Orkugörðum Austurlands sem rísa skal á Reyðarfirði ef allt gengur eftir.

Fram kom að CIP hefur fengið samstarfsaðila á borð við Síldarvinnsluna og Skeljung að borðinu en bæði fyrirtæki hafa hug á að kanna fýsileika þess að nota rafeldsneyti til að knýja flutninga- og fiskiskip framtíðarinnar. Rafeldsneyti er gjarnan kallað grænt eldsneyti enda er engin mengun af framleiðslunni sem verður í formi ammóníaks á Reyðarfirði. Slík framleiðsla, verði hún að veruleika, mun draga úr innflutningi á olíu og bensíni, minnka losun gróðurhúsalofttegunda og skapa gjaldeyrissparnað fyrir þjóðfélagið. Rafeldsneyti gæti þýtt algjört orkusjálfstæði Íslands þegar fram líða stundir að mati sérfræðinga en töluverður tími er í að það geti orðið raunin.

Magnús, sem túlkaði fyrir hina sænsku Önnu-Lenu, tók skýrt fram að ekkert væri enn fast í hendi og engar ákvarðanir hefðu verið teknar. Ferlið sé í byrjunarfasa og CIP gefur sér þrjú til fjögur ár til undirbúnings. Uppbygging vindorkugarðsins sjálfs taki svo vart minna en fimm ár eða svo áður en raunverulega orkuframleiðsla getur hafist.

Ástæða þess hve fyrirtækið einblínir á Fljótsdalshrepp sagði Magnús mikið af hentugu auðu landsvæði í hreppnum en stór ástæða væri líka nálægð við flutningslínur beint til Reyðarfjarðar. Þegar eru til staðar tvær raflínur frá Fljótsdalsvirkjun að álveri Alcoa. Orka sem framleidd yrði með vindmyllum yrði flutt gegnum þær línur. Önnur þeirra er aðeins varalína, lítið í notkun og hentug fyrir vikið.

Áætlanir CIP gera ráð fyrir 50 ára starfstíma  vindorkugarðsins og á því tímabili væri gert ráð fyrir að endurnýja blöð myllanna einu sinni eftir 25 ár. Fyrirspurnir komu úr sal varðandi hugsanlega mengun af þeim blöðum en í þeim eru þrávirk plastefni sem komast auðveldlega í náttúruna. Anna-Lena svaraði því til að vel yrði gætt að því að endurnýta allt sem hægt væri og þeir hlutar sem ekki væri hægt að nýta aftur yrðu kurlaðir í smátt og blandaðir sementi eða steypu. Framfarir væru hraðar á þeim vettvangi og ekki óhugsandi að aðrar og betri lausnir komi fram á næstu árum.

Þá fýsti gesti að vita hvar CIP sæi fyrir sér að byggja umræddan orkugarð en allnokkrar staðsetningar hafa verið nefndar til sögunnar hingað til. Helgi sagði 3-4 svæði til skoðunar, á borð við Víðivallaháls, Flatarheiði, á austanverðum Múla og á Fljótsdalsheiði í landi Eyrarlands, Arnheiðarstaða og Brekkugerði koma til greina en önnur svæði séu hugsanleg.

Anna-Lena tiltók að fyrstu skrefin væri samtal við sveitarfélagið sjálft, síðan að ná samkomulagi við landeigendur og þá fyrst væri hægt að hefja rannsóknir að einhverju marki. Það yrði ekki fyrr en að þeim rannsóknum loknum sem stærð garðsins, staðsetning eða hvers kyns vindmyllur yrðu fyrir valinu eða annað slíkt yrði ákveðið. Síðastnefnda atriðið, tegund vindmyllanna, var ofarlega í huga nokkurra gesta sem sögðu reynsluna slæma af myllum framleiddum af danska fyrirtækinu Vestas. Fram kom í máli Önnu-Lenu að Vestas er beinn hluthafi í CIP.

Ýmsir þröskuldar í vegi

Kristinn Bjarnason, lögfræðingur Fljótsdalshéraðs, fór yfir afstöðu sveitarfélagsins til fyrirhugaðra vindorkulaga en sérstakur starfshópur á vegum stjórnvalda vinnur nú að undirbúningi þess. Ráðgert er að sá hópur skili niðurstöðum sínum í lok febrúar og stjórnvöld geri hugsanlega breytingar á löggjöf í kjölfar þess.

Annar eldri starfshópur gerði breytingu á rammaáætlun að tillögu sinni fyrir tveimur árum sem hefði tekið sérstaklega á meðferð vindorkukosta og þar lagður skýr grunnur sem er ekki til staðar í gildandi orkulögum. Eins og sagði í tillögunni: „Meðferð og mat á vindorkukostum í rammaáætlun byggist á sérstakri opinberri stefnumörkun um vindorkunýtingu með tilliti til landslags og náttúru Íslands, sem lögð verður fram á Alþingi til umfjöllunar og samþykktar sem sérstakrar þingsályktunar samkhliða breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Stefnumörkunin ásamt lögunum verði helsta stjórntækið við meðhöndlun vindorkukosta í rammaáætlun.“

Þessi lagabreyting náði ekki í gegn og dagaði uppi en hefði takmarkað mjög áhrif sveitarfélaga á alla þætti orkunýtingarverkefna. Þröskuldarnir eru fleiri að sögn Kristins.

„Ef verkefni er sett í nýtingarflokk [svæði sem sérstök verkefnastjórn metur best til orkuframleiðslu] þá er sveitarfélögum eða skipulagsvaldinu skylt að aðlaga aðalskipulag að rammaáætluninni. Sveitarfélögin hafa þá fjögur ár til að breyta skipulaginu en er heimilt að fresta því um tíu ár eða lengur ef svo ber undir. Annað sem hafa þarf hugfast er að verkefni sem þetta þarf að fara í umhverfismat og þá þarf virkjunarleyfi frá Orkustofnun. Sveitarfélagið sjálft þarf svo að veita framkvæmda- og byggingarleyfi. Þetta eru þessir ferlar sem þarf að uppfylla frá sjónarhóli sveitarfélagsins til að svona verkefni komist áfram. Eftir því sem ég kemst næst er ekkert byrjað að vinna í neinum af þessum ferlum.“

Kristinn nefndi líka að komið væri inn á orkunýtingu í nýsamþykktu svæðisskipulagi Austurlands til ársins 2044 sem þyrfti að taka tillit til. Þar segir: „Orkulindir nýtist til eflingar byggðar í landshlutanum. Við ákvörðun um nýtingu vatns, jarðhita og vinds til orkuframleiðslu verði sjálfbærni, umhverfisvernd og landslagsgæði höfð að leiðarljósi og byggt á greiningu á orkukostum og mati á áhrifum nýtingar og orkuflutnings á umhverfi, efnahag og samfélag. Stuðlað verði að góðri orkunýtingu.“

Viljum geta sagt nei

Sveitarstjórinn Helgi Gíslason sagði í lok fundar að það væri sjálfsögð kurteisi við íbúa Fljótsdals að allt yrði upp á borðum og sagði fundinn í gær aðeins eitt samtal af mörgum. Margt væri óljóst við verkefnið í heild sinni og ekki síst hvaða áhrif hugsanleg lagasetning hefði þegar fram líða stundir. Hann sagði þó, ólíkt rauninni víða annars staðar, þekkingu til staðar á orkuverkefnum sem þessum af hálfu Fljótsdalshrepps vegna Fljótsdalsvirkjunar á sínum tíma. „Það kemur okkur til góða að hér er töluverð þekking til að takast á við verkefni sem þetta. Múlaþing hefur til dæmis ekki tekist á við byggingu orkumannvirkis eins og hér reis á sínum tíma.“

Helgi sagði það skýrt af hálfu sveitarfélagsins að ákvörðunartaka í málum sem þessum yrði á hendi heimamanna en ekki fastsett í umgjörð eins og Rammaáætlun þar sem ákvörðunarrétturinn í stórum málum væri færður annað. „Við hér viljum hafa sjálfsákvörðunarréttinn, hvað við viljum og viljum ekki sé á okkar hendi. Við viljum geta sagt nei ef svo ber undir en verði Fljótsdalur settur í nýtingarflokk missum við þann rétt.“

Fleiri spurningar en svör

Að fundi loknum voru margir fundargestir á þeirri skoðun að æði margt varðandi hugsanlega byggingu orkugarðs í Fljótsdal væri enn á huldu.

Einn þeirra benti á að betur færi á að ákvarðanir um vindorkunýtingu væri á hendi ríkisvaldsins eins og með aðra orkunýtingu því vindgarðar hefðu áhrif á fleira en hag nærsamfélagsins. Betur færi á að taka slíkar ákvarðanir með stóru myndina að leiðarljósi en hagsmuni hvers og eins sveitarfélags.

Annar gestur dró í efa yfirlýsingar CIP að skipta út blöðum vindmyllanna eftir 25 ár. Rannsóknir sýndu að slík blöð væru ekki að endast lengur en tíu til fimmtán ár í raunveruleikanum.

Ammóníaksframleiðsla á Reyðarfirði kom einnig til tals en ammóníak er bæði ætandi og hættuleg gastegund. Sömuleiðis að þvi fundið að engir efasemdarmenn hefðu fengið boð um ferðina til Spánar.

Gestir settu líka spurningarmerki við hvernig stór vindmyllugarður, með tilheyrandi sjónmengun, færi saman við verkefnið Fögur framtíð í Fljótsdal og ekki síður gagnvart ferðaþjónustu sem er vaxandi þar sem annars staðar. Vindorkugarðar færu seint á óskalista ferðamanna og kannski ekki síst í lítt snortinni náttúrunni austanlands.

Margt fleira var reyfað á fundum sem stóð í tæpar þrjár klukkustundir en flestir fundarmenn sammála um að halda þurfi samtalinu áfram meðan að á undirbúningi vindorkugarðsins stendur. Undir það tók sveitarstjórinn sem sagðist vilja blása til eins margra íbúafunda og þyrfti til svo íbúar væru öllum stundum meðvitaðir um framþróun verkefnisins. Þetta ferli allt skuli vera fyrir opnum tjöldum allra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.