Orkumálinn 2024

Fulltrúar flestra framboða í NA-kjördæmi hlynntir gjaldtöku í vegakerfinu

Á Rás 2 í gær fór fram kjördæmafundur með fulltrúum allra flokka sem bjóða sig fram í Norðausturkjördæmi. Fulltrúar flokkanna voru m.a. spurðir um hvernig þeir vildu fjármagna vegakerfið.

Langflestir fulltrúarnir voru hlynntir gjaldtöku á vegum í einhverju formi. Fulltrúar Miðflokksins, Frjálslynda lýðræðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands voru andvígir beinni þátttöku almennings í uppbyggingu vegakerfisins.


Sú leið sem flestir töluðu fyrir er svokölluð PPP (Public-Private Partnership) eða samvinnuverkefni en Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mælti fyrir frumvarpi um þá leið á kjörtímabilinu. „Samvinnuverkefnum má í stuttu máli lýsa þannig að einkaaðili tekur að sér samfélagsleg uppbyggingarverkefni sem áður hafa einkum verið í umsjá hins opinbera. Fyrir samgönguframkvæmdir lýsir það sér oftar en ekki í því að einkaaðilinn tekur að sér eftir útboð að hanna, fjármagna, byggja og reka mannvirki í tiltekinn tíma fyrir hið opinbera. Greiðslur fyrir verkið geta falist í notendagjöldum, veggjöldum í tilviki vegagerðar, skuggagjöldum eða föstum greiðslum ríkissjóðs til verksala. Ekki er óalgengt að einkaaðili taki nokkra fjárhagslega áhættu, hvort sem er af fjármögnuninni sjálfri og/eða af því að umferðarspár sem samningurinn miðar við gangi ekki eftir. Í lok samningstíma tekur hið opinbera við rekstri mannvirkjanna, oftar en ekki endurgjaldslaust,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Svör fulltrúa stjórnmálaflokkanna í Norðausturkjördæmi á kjördæmafundi á Rás 2 í gær við spurningu um hvernig þeir vilja fjármagna vegakerfið má lesa hér:

Miðflokkurinn – Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Oddviti): Með skuldsettri framkvæmd ríkisins sem lífeyrissjóðirnir geta t.d. haft tækifæri á að fjárfesta í. En kjör ríkisins núna eru slík að hagkvæmni, sérstaklega í samgöngumálum, hefur aldrei verið eins mikil, ef menn raunverulega trúa að samgöngur séu hagkvæmar, sem ég held að flestir geri þá á að gera sem mest af þeim núna.

Sjálfstæðisflokkurinn – Njáll Trausti Friðbertsson (Oddviti): Þessi PPP, eða samstarfsfjármögnun, þetta er bara besta mál. Við eigum tækifæri í þessu kjördæmi eins og með Öxi og mögulega fleiri verkefni, gangnagerð og fleiri hluti, svo þetta er ekki spurning.

Flokkur fólksins – Jakob Frímann Magnússon (Oddviti): Með þeirri höfuðbúgrein sem ferðaþjónustan er að gefa okkur í tekjur og ef það eru sérstök verkefni eins og Hvalfjarðargöng á sínum tíma þá gafst ágætlega að vera með einhvern þúsund kall í gegnum göngin. Mér er alveg sama þó það kæmi fyrir Sundabraut en almennt er þetta málefni ríkisins til að gera þessa stóru búgrein, ferðaþjónustuna, mögulega.

Framsóknarflokkurinn – Ingibjörg Ólöf Isaksen (Oddviti): Við teljum PPP vera tækifæri til að ráðast í framkvæmdir, eins og t.d. við horfum á Vaðlaheiðagöng sem ekki hefðu orðið að veruleika nema fyrir slíkt og þetta gæti flýtt framkvæmdum sem annars þyrfti að bíða eftir í 15 til 20 ár.

Samfylkingin - Hilda Jana Gísladóttir (2. sæti): Samfylkingin er almennt á því að ef það eru tveir valkostir, þ.e.a.s. eins og Vaðlaheiðagöngin, þú getur ennþá farið Víkurskarðið að þá sé ásættanlegt að horfa ti veggjalda. En þegar það er eina leiðin þá sé það ekki ásættanleg leið.

Sósíalistaflokkur Íslands – Haraldur Ingi Haraldsson (Oddviti): Nú ætlar ríkisstjórnin að fara eyðileggja [vegakerfið] með einkavæðingu. Hvernig ætlum við að fjármagna þetta? Við gerum aðrar kröfur á ríkisvaldið en er gert í núverandi fjármagnsskipulagi. Við gerum kröfu á að ríkisvaldið sjái raunhagkerfinu fyrir fjármögnun. Það er einfalt, það neitar því enginn núna, meira að segja Seðlabankastjóri hefur sagt það sjálfur að ríkisvaldið getur gefið út næga peninga. Þetta er bara spurning um að skilja hvað peningar eru. Þess vegna getur ríkisvaldið sett eins mikla peninga í framkvæmdir sem okkur langar til að gera [...] Alfarið á móti veggjöldum og þetta er stórslys.

Viðreisn – Eiríkur Björn Björgvinsson (Oddviti): Við horfum bara til aðkomu einkaframtaksins í slíkum fjárfestingum. Við sjáum það líka með útgáfu grænna skuldabréfa svo við getum stuðlað að vistvænum samgöngum.

Píratar – Einar Brynjólfsson (Oddviti): Í grunninn eiga að sjálfsögðu allar vegabætur að vera gjaldfrjálsar fyrir þá sem þær nota. Hitt er annað mál að við gerum okkur grein fyrir því að göng eru gríðarlega dýr. Ég segi fyrir mitt leyti að þar sem hægt er að velja annan kost, þ.e.a.s. að sleppa því að nota slík göng og fara aðra leið þá væri kannski ekkert að því að hafa opinbera fjármögnun eins og var með Hvalfjarðargöng

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn – Björgvin Egill Vídalín Arngrímsson (Oddviti): Við viljum ekki taka þátt í Borgarlínu, sem kostar um 400 milljarða. Nú aðgerðir okkar í breytingu á fiskveiðiauðlindinni og aðskilnaður með veiðar og vinnslu það mun skila miklum peningum inn í þjóðarbúið og standa undir framkvæmdum á vegum.

Vinstri græn – Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Oddviti): Við höfum talað fyrir því að ef það eru tvær leiðir færar þá sé í lagi að nota svokallaða PPP fjármögnun. Ég man bara þá umræðu þegar Hvalfjarðargöng [...] það ætlaði enginn að keyra Hvalfjarðargöng því það yrði svo dýrt en ég held að flestir sem ég þekki að minnsta kosti keyra ekki Hvalfjörðinn nema bara til að fara á rúntinn [...] Ég hef talað fyrir því að nota græn skuldabréf til að fjármagna jarðgöng sérstaklega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.