Flestir tiltölulega rólegir heimavið í Neskaupstað
Í ljósi sögunnar er afskaplega eðlilegt að snjóflóðaviðvaranir og rýmingar fari miður niður í íbúa hvar sem slíkt gerist. Heimafólk í Neskaupstað er þó að mestu leyti tiltölulega rólega yfir stöðunni. Bjáti eitthvað á eða einhver þurfi aðstoð séu margir reiðubúnir að rétta hjálparhönd umsvifalaust.
Rúmur sólarhringur er síðan óvissustigi almannavarna var lýst yfir bæði á Seyðisfirði og í Neskaupstað vegna hættu á snjóflóðum í byggð en því fylgdu rýmingar á þeim stöðum sem óvissa var um með tilliti til úrkomu og spám á þeim tíma. Þær rýmingar í gildi til morguns og enn er búist við nokkurri snjókomu síðdegis og fram á kvöldið.
Margrét Perla Kolka Leifsdóttir, kennari við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað, segir íbúa almennt vera rólega og vel fari um flesta þrátt fyrir viðvaranir og mikið fannfergi. Það sé hennar tilfinning að fólk sé almennt rólegra yfir stöðunni en oft áður.
„Það er mín tilfinning heilt yfir að fólk sé kannski aðeins að venjast þessum annars slæmu aðstæðum. Mér svona sýnist flestir hverjir halda sig heima sem geta og það snjóaði það mikið í nótt að margir eru einfaldalega bara fastir heimavið og sætta sig við það að sinni. Annars sýnist mér búið að ryðja allar svona helstu götur bæjarins þannig að ef einhver þarf þjónustu í verslun eða slíkt þá kemst viðkomandi alveg á staðinn eða fær allavega hjálp til þess ef á þarf að halda.“
Undir þetta tekur Kristín Hávarðardóttir sem segist hreint og beint ekkert hafa hreyft sig að heiman það sem af er degi.
„Nei, ég hef ekki lagt í að reyna að grafa bílinn út úr skafli til að komast neitt í dag enda gáfulegra að leyfa bílnum að vera og þannig veita snjóruðningsmönnunum pláss til að hreinsa eins vel og þeir geta. Án þess að ég hafi farið neitt út sjálf þá sýnist mér vera rólegt um hér í kring og fólk sennilega flest heimavið. Enda fann maður það í fyrrakvöld í kjörbúðinni að fólk var að versla kannski aðeins meira en það hefði annars gert og líklega með tilliti til þess hvert í stefndi.“
Eftir því sem Austurfrétt kemst næst hefur gengið mjög vel að ryðja götur bæjarins þrátt fyrir blautt og þungt fannfergið. Snjóruðningsmenn líkt og áður ekki mikið sinnt reglum um hvíldarskyldu eða matar- og kaffitíma á tímum sem þessum.
Björgunarsveitarfólk verið víða á vappi í Neskaupstað síðasta sólarhringinn að gæta að öryggi borgaranna og í sumum götum hefur þurft að gera það fótgangandi. Mynd Landsbjörg