Aprílgabb: Fljótsdælingar falast eftir Fellabæ

Þreifingar eru hafnar milli Fljótsdalshrepps og sveitarfélagsins Múlaþing um að Fellabær verði hluti af fyrrnefnda sveitarfélaginu. Fellbæingar hafa boðað til mótmæla vegna málsins í dag.

Þeir fulltrúar í sveitarstjórnum og fulltrúar sem Austurfrétt hefur rætt við eru tregir til að tjá sig og þá alls ekki undir nafni.

Austurfrétt hefur hins vegar fengið staðfest að málið hafi borið á góma á sameiginlegum fundi sveitarstjórna Fljótsdalshrepps og Múlaþings 4. mars síðastliðinn og því fylgt eftir með fleiri fundum síðan. Hugmyndir eru uppi um að kjósa um breytinguna samhliða þingkosningum í lok september.

Málið er á viðkvæmu stigi en ljóst að áhugi Fljótsdælinga er ósvikinn. „Þetta eru í grunninn bara stór fasteignaviðskipti,“ segir heimildamaður sem tekið hefur þátt í viðræðunum..

Aðþrengdir af íslenska ríkinu

Fljótsdælingar hafa undanfarin misseri haft hugmyndir um að byggja upp þéttbýli í dalnum en ekki lukkast að fá undir það land. Þá hefur vofað yfir þeim að verða þvingaðir til sameiningar með nýjum lögum um lágmarksfjölda íbúa sveitarfélaga. Þá finna Fljótsdælingar einnig til þess að vera aðþrengdir landfræðilega með nýjum þjóðlendukröfum og hugmyndum um hálendisþjóðgarð.

Heimildir Austurfréttar herma einnig að fulltrúar Múlaþings hafi boðið Hallormsstað með í viðskiptunum. Engin ákvörðun hafi verið tekin um það en Fljótsdælingar hafa meiri augastað á Fellabæ út af íbúafjöldanum. Þá dregur það ekki úr þeim að sveitarstjórinn er Fellamaður.

Yfirgangur nágranna

Hugmyndirnar hafa ekki verið kynntar íbúum í Fellabæ en þeir hafa hins vegar fengið veður um áformin. Skoðanir þeirra munu vera skiptar um ágætið, en fyrst og fremst gremst þeim að hafa ekki verið hafðir með í ráðum. Þeir hafa því boðað til mótmælafundar við skrifstofur Múlaþings á Egilsstöðum klukkan 14:00 í dag.

„Ég trúi þessu ekki. Þetta eru óforsvaranlegar hugmyndir og sýna vel ofríki Egilsstaðahrepps gagnvart okkur Fellamönnum, eins og hefur alltaf verið. Mér finnst fullkomlega forkastanlegt að ráðamenn leyfi sér að ráðskast svona með okkur. Að ég tali ekki um Fljótsdælinga, smásálir með stórmennskubrjálæði,“ segir Sigurður Ragnarsson, einn skipuleggjenda mótmælanna.

„Við Fellamenn tökum þessu ekki þegjandi, við verðum að mótmæla þessu af festu og ég vona að sem flestir mæti til að sýna okkur samstöðu,“ segir Sigurður Ragnarsson, íbúi í Fellabæ og einn skipuleggjenda mótmælanna.

Fulltrúar Múlaþings og Fljótsdalshrepps gerðu fleira en skoða nýja kyndistöð við Végarð á fundi sínum í byrjun mars. Mynd: Fljótsdalshreppur

fellabar embaettismenn


fellabaer fljotsdalur logo


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.