Fljótsdælingar stefna að því að kolefnisbinda 20% meira en losað er í hreppnum
Samkvæmt uppfærðri og samþykktri loftslagsstefnu Fljótsdalshrepps skal unnið að því næstu árin að binda allt að 20% meiri koltvísýring en losað er í hreppnum.
Fljótsdalshreppur er annað tveggja sveitarfélaga austanlands með formlega loftlagsstefnu en í Fjarðabyggð er einnig unnið eftir slíkri stefnu. Uppfærð stefna Fljótsdalshrepps nær til ársins 2035.
Stefna Fljótsdalshrepps í þessum málum tekur til alls reksturs sveitarfélagsins og skal aukreitis vera íbúum hreppsins hvatning til góðra verka í loftslagsmálum. Í henni er miðað við markmið Parísarsamkomulags þjóða heims um að takmarka hlýnun andrúmsloftsins við 1,5 stig.
Lykill að árangri í loftslagsbókhaldinu er að hafa mælanleg markmið og þess vegna hyggst hreppurinn skoða að setja upp sérstakt loftslagsbókhald á næsta ári þar sem fyrsta viðmiðunarárið yrði yfirstandandi ár. Alls eru sextán aðgerðir á áætlun til að settum markmiðum sé náð innan þess tímaramma sem stefnan nær til.
Meðal þeirra aðgerða sem grípa skal til má nefna:
- Kolefnisspor/loftslagsbókhaldið skal reiknað og birt árlega
- Greina skal kolefnisbindingu í hreppnum og kanna hvort öll landnotkun sé sjálfbær
- Skoða skal hvort þörf verður á að kaupa vottaðar kolefniseiningar eða gróðursetja meira
- Kafli í skipulagsgögnum skal taka mið af leiðbeiningum um Grænni byggð
- Við skipulag skal gera ráð fyrir vistvænum farartækjum og orkugjöfum
- Halda skal fræðslufundi um loftslagsmál í upphafi hvers kjörtímabils
- Minnka skal úrgang um 5% árlega
- Stuðla skal að aukinni jarðgerð og nýtingu lífræns úrgangs
- Fjölga skal reið,- göngu- og hjólastígum
- Auka hlutfall umhverfisvottaðra vara í innkaupum um 90% á tímabilinu
Fljótsdalurinn í vetrarbúningi í síðasta mánuði. Næstu árin skal fátt gert í hreppnum án þess að tillit verði tekið til formlegrar loftslagsstefnu. Mynd AE