Fljótsdalsstöð uppfyllir öll alþjóðleg sjálfbærnimarkmið mætavel samkvæmt úttekt
Nýtt heildarmat evrópskra sérfræðinga á sjálfbærnimálum á rekstri Kárahnjúkavirkjunar og Fljótsdalsstöðvar leiðir í ljós að Landsvirkjun er heilt yfir að standa sig afar vel og rekstur þeirrar stofnunar almennt í háum gæðaflokki.
Teymi fjögurra erlendra sérfræðinga framkvæmdi í septembermánuði úttekt á sjálfbærnimálum Landsvirkjunar í Fljótsdalnum og á Fljótsdalsheiði samkvæmt svokölluðu HSA vottunarkerfi en það alþjóðlega viðurkennda kerfi tekur til tólf mismunandi þátta í rekstri vatnsafslstöðva.
Skýrsla fjórmenninganna var gerð opinber fyrr í vikunni og sýnir fram á að frammistaða Landsvirkjunar varðandi Fljótsdalsvirkjunina er afar góð og reyndar aðeins betri en reyndin var við sams konar úttekt sem gerð var árið 2017. Allir geta komið fram með athugasemdir við skýrsluna fram til 10. mars næstkomandi en hana má finna hér í heild.
Skýrslan sjálf vel yfir 150 síður en í grunninn eru sérfræðingarnir afar ánægðir með umfangsmikla vöktun Landsvirkjunar á svæðinu, rekstur allur í fullu samræmi við kröfur og skuldbindingar og raforkuframleiðslan fer fram með lágu kolefnisspori. Allir helstu sjálfbærniþættir séu þegar samþættir við heildarstarfsemi Landsvirkjunar. Þá sé stofnunin í góðum samskiptum við bæði eigið starfsfólk sem og fulltrúa allra stofnana eða fyrirtækja sem erindi eiga. Þá búi Landsvirkjun yfir rótgrónu kerfi til að stjórna og bregðast við flóknum áskorunum varðandi vistkerfis- eða vatnsgæðastjórnun.
Í stóru myndinni er niðurstaðan þessi:
„Virkjunin hefur bætt innviði og aðgengi, greiðir umtalsverða skatta (þó ójafnt dreift) og styður marga hópa með margvísleg málefni, þar á meðal við stjórnun landssvæðis, rof vatnsbakka, fiskveiðar, ferðaþjónustu og menningu. Lífsviðurværi og lífskjör hafa batnað hvað varðar nánast öll atriði, þó er einn hópur fólks sem hefur orðið fyrir áhrifum, en það eru landeigendur neðan við aflstöðina með veiðirétt í Lagarfljóti og hefur þessi þáttur lífsviðurværis þeirra ekki enn verið endurreistur.“