Fólk í einangrun og sóttkví getur kosið á Austurlandi

Austfirðingar sem eru í einangrun eða sóttkví vegna Covid-19 smits missa ekki lýðræðislegan rétt sinn heldur geta mætt á sérstakan kjörstað fyrir Alþingiskosningarnar 25. september.

Sumir gætu þó þurft að ferðast um nokkuð langan veg því kjörstaðurinn hefur verið auglýstur á Seyðisfirði, nánar tiltekið í tollaðstöðunni á Ferjuleiru. Unnið er að því að fólk geti sótt um heimakosningu sem ekki getur mætt á kjörstað vegna Covid-19.


Kjörstaðurinn verður opnaður mánudaginn næstkomandi, 20. september, og verður opinn á milli klukkan 15 og 17 til föstudagsins 24. september. Á kjördag verður opið eftir þörfum og er kjósendum bent á að hafa samband í síma 896-4743 ef þörf verður á.


„Fyrirkomulag verður þannig að ekið er inn um opnu dyrnar á myndinni [innsk. sjá mynd til hliðar]. Kjósanda verður síðan hleypt út um dyrnar þar á móti. Hvorki má opna dyr né glugga bifreiða við kosninguna og telst kjósanda hönd ónothæf vegna sóttkvíar eða einangrunar. Nánari leiðbeiningar um framkvæmd kosningar verða settar í reglugerð og vísast til hennar er hún kemur út. Embættið mun greina frá þeim reglum á Facebook og hún um verða tiltæk á vef sýslumanna er nær dregur kosningum,“ segir Lárus Bjarnason, sýslumaður Austurlands.


Þeir sem geta alls ekki nýtt sér þetta úrræði ættu að geta sótt um heimakosningu en unnið er að útfærslu hennar hjá dómsmálaráðuneytinu. „Þá er reglugerð í smíðum um covidkosningar og mun birtast von bráðar á vef stjórnarráðsins þar um. Fylgst er með þróun mála varðandi möguleg smit og fjölda og staðsetningu þeirra sem kunna að verða í einangrun og sóttkví á kjördag. Leitast er við að þeir sem það geta mæti í hina fyrirfram ákveðnu covid kosningu en þeir sem alls ekki geta mætt í hana geta eins og áður segir sótt um heimakosningu. Við þetta má bæta að ráðuneytið hefur unnið að umsóknareyðublaði sem verður aðgengilegt á netinu þar sem sótt er um kosningu á dvalarstað fyrir kjósendur í sóttkví eða einangrun,“ segir Lárus Bjarnason.

 

Myndin sýnir aðstöðuna á Seyðisfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.