Fólksfjölgun á Austurlandi töluvert undir meðaltali
Fólksfjölgun á Austurlandi var aðeins 0,9% á síðasta ári sem er töluvert undir landsmeðaltali. Aðeins á Vestfjörðum var fjölgunin minni eða 0,5%.Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að þann 1. janúar síðastliðinn var íbúafjöldi á Íslandi 364.134 sem er 2,0% fjölgun frá sama tíma árið áður eða um 7.143 einstaklinga
Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 4.803 fleiri 1. janúar 2020 en fyrir ári. Það jafngildir 2,1% fjölgun íbúa á einu ári. Hlutfallslega var fólksfjölgunin hins vegar mest á Suðurlandi þar sem fjölgaði um 3,9% eða 1.053 frá síðasta ári.
Fólki fjölgaði um 2,6% á Suðurnesjum og 1,3% á Norðurlandi vestra. Minni fólksfjölgun var á Vesturlandi eða 0,9%, á Austurlandi 0,9% og á Vestfjörðum 0,5%.
Þegar litið er til síðustu fimm ára fjölgaði landsmönnum að meðaltali um 2,0% á ári. Suðurnes voru á tímabilinu fyrir ofan landsmeðaltal með 4,8% árlega fjölgun. Á Suðurlandi var fjölgunin einnig yfir landsmeðaltali, 3,1% á ári að meðaltali á meðan höfuðborgarsvæðið stóð í stað eða 2,0%.
Árleg fjölgun síðustu fimm ár var undir landsmeðaltali á Vesturlandi eða 1,4%, á Austurland var fjölgunin 1,1%, á Norðurland eystra 0,9%, á Norðurland vestra 0,5% og á Vestfjörðum aðeins 0,4%.