Foreldrar á Eskifirði hika við að senda börn sín í íþróttir vegna ástands íþróttahússins

Dæmi eru um að foreldrar á Eskifirði hafi óskað eftir því að börn þeirra þurfi ekki að mæta í íþróttir vegna ástands íþróttahúss staðarins. Mikils leka varð vart þar í byrjun vikunnar eftir rigningar síðustu daga og ekki í fyrsta sinn. Bæjarstjóri segir vonbrigði að fyrri aðgerðir hafi ekki skilað árangri en vandamál virðist í þakrennukerfi hússins.

„Við vitum af áhyggjum foreldra við að senda börnin sín í íþróttir í húsinu. Okkur hafa borist beiðnir um að hlífa börnunum við því uns niðurstöður mygluprófs liggja fyrir og höfum orðið við því,“ segir Jóhanna Guðnadóttir, aðstoðarskólastjóri á Eskifirði.

Aðeins var kennt í hálfu húsinu í gær og fyrradag. Á miðvikudögum er sundkennsla og því húsið ekki í notkun. Dæmi eru um að íþróttaæfingar utan skóla hafi verið færðar úr húsinu. Skólastjórnendur hafa áður vakið athygli á ástandi hússins og Ungmennafélagið Austri sömuleiðis. Það er komið nokkuð til ára sinna, byggt árið 1968.

Íþróttakennari birti myndband af ástandi hússins á mánudag í Facebook-hópi Eskfirðinga. Þar sjást á veggjum stórar blöðrur fullar af vatni sem vellur út þegar þrýst er á þær. Í athugasemdum lýsa íbúar því að ástandið sé óboðlegt og telja yfirvöld í Fjarðabyggð hafa sýnt af sér athafnaleysi, ekki séð hægt að bjóða börnunum upp á þetta ástand. Foreldrar hyggjast hittast til að knýja á um úrbætur.

Frárennsli frá þakrennum í ólagi

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir lekann nú virðast stafa af vandamálum í þakrennukerfi hússins. Þaki þess er haldið uppi af steyptum súlum og inni í þeim sé frárennslisrör frá þakrennunum. Svo virðist sem upptök lekans séu í þessu frárennsli, hann sé mestur þar. Gripið var til aðgerða í haust vegna sambærilegs leka. Jón Björn segir að þá hafi verið talið að málið væri leyst en svo sé greinilega ekki, sem sé miður.

Ekki hefur verið hægt að mynda rennurnar síðustu daga en það verður gert í dag því loks er stytt upp. Jón Björn segir að síðan verði rifið frá til að komast betur að uppruna bleytunnar. Farið verði yfir hvað valdi leka í húsinu og hann þurrkaður upp. Eins verður tekið myglupróf. „Það verður farið í frekari framkvæmdir við húsið út af þessum leka,“ segir hann.

Bæjarstjórn tók fjárhagsáætlun næsta árs til fyrstu umræðu í síðustu viku. Jón Björn segir að fram að seinni umræðu verði unnin áætlun um viðhaldsþörf íþróttamannvirkja í Fjarðabyggð, þar með talins íþróttahússins á Eskifirði. Hún verði leiðarljósi í viðhaldi þeirra sem og við stefnumörkun við uppbyggingu íþróttamannvirkja, en sú vinna á að fara af stað í desember. Jón Björn bendir einnig á að eftir úttekt árið 2017 hafi verið farið í framkvæmdir á húsinu, meðal annars breytingar á loftræstikerfi.

Hann segist skilja vel áhyggjur foreldra á Eskifirði. „Það er víða barist við myglu í byggingum í dag og við þekkjum það. Við viljum kanna málið og bregðast við, enda höfum við farið strax í aðgerðir þar sem mygla hefur komið upp í skólahúsnæði. Áhyggjurnar eru skiljanlegar og við viljum að ástand húsanna okkar sé þannig að heilsufari sé ekki stefnt í hættu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.